140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við fyrri spurningunni er að ef það er umframstofnfé við sameiningu við annan sparisjóð eða aðra stofnun er gert ráð fyrir því að umframstofnféð sé sett inn í sérstakt sameignarfélag sem síðan muni eingöngu sinna samfélagslegum verkefnum. Það er því ekki hægt að sameina sparisjóð sem er með mikið umframstofnfé einhverju hlutafélagi til dæmis, og að síðan geti þeir hluthafar hirt umframstofnféð, það er ekki hægt. Einnig ef það eru tveir sparisjóðir þar sem stofnfé í öðrum er neikvætt en í hinum jákvætt eða umfram, má ekki nota jákvæða hlutann til þess að greiða niður neikvæða hlutann í hinum. Það á að vera komið í veg fyrir það og þetta var mikið til umræðu í nefndinni.

Hvað varðar hringferli peninganna gæti það vissulega verið hægt enn þá en þó er sjálfkrafa komið til móts við þessi sjónarmið að nokkru leyti vegna þess að af innlánum sem eru tekin þarf að borga 0,2%, held ég að það sé núna, í Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Ef maður leggur það inn í aðra innlánsstofnun þarf að borga aftur 0,2% þannig að (Forseti hringir.) það er ljóst að þetta kemur niður á ávöxtuninni.