140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

hlutafélög og einkahlutafélög.

742. mál
[14:11]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög takmarkar í fyrsta lagi heimildir fyrirtækja til þess að lána starfsmönnum sínum til kaupa á eigin hlutafé. Þeim verður aðeins heimilt að lána allt að 1 millj. kr. á ári. Þetta ákvæði vantar illilega í dag, það hefur sýnt sig.

Í öðru lagi er bannað að viðlagri refsingu að láta peninga fara í hring eins og ég nefndi rétt áðan í andsvari. Ég vil láta á það reyna hvort þetta standist alla lögfræði og annað slíkt og óska eftir því að málið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem sendi það til umsagnar þá þegar til að fá um það umsagnir hvort hægt sé að koma í veg fyrir þessa hringferla, sem voru mjög algengir á Íslandi og eru sennilega ástæðan fyrir hruninu, með þeim einfalda hætti að banna þá hreinlega. Ég er viss um að sérstakur saksóknari hefði haft mikinn áhuga á að slíkt ákvæði hefði verið í gildi. Ef slíkt ákvæði hefði verið í gildi hefði aldrei orðið hrun að mínu mati.