140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem tekur sérstaklega á starfsemi sparisjóða. Eins og kom fram í máli mínu fyrr í dag er ég ein á því nefndaráliti.

Markmiðið með frumvarpinu er fyrst og fremst að auðvelda sparisjóðum að sækja sér eigið fé með því að veita heimild til þess að breyta sparisjóði í hlutafélag. Þá kemur það hlutafélagaform til hliðar við sjálfseignarform sem er á félagslegum grunni.

Þessi heimild er að mínu mati algjör uppgjöf gagnvart því verkefni að endurreisa sparisjóðakerfið á félagslegum grunni með samfélagslegum markmiðum í stað hagnaðarmarkmiðs.

Sparisjóðirnir voru stofnaðir til að veita litlum viðskiptavinum utan stórra markaðssvæða þjónustu sem viðskiptabankar töldu ekki svara kostnaði. Það var sem sagt upphaflega markmiðið með stofnun sparisjóða. Markmiðið var líka að setja á fót sparisjóði til þess að skjóta styrkari stoðum undir uppbyggingu samfélaga úti í hinum dreifðu byggðum og ekki síst að í stað þess að láta hagnaðinn renna til eigenda lánastofnunarinnar mundi hann vera notaður til að lækka útlánakostnað þannig að vextir á lánum sparisjóða áttu að vera lægri en almennt gerðist hjá bönkum í hlutafélagaeigu.

Árið 2002 voru gerðar grundvallarbreytingar á lögum um sparisjóði. Ein þessara breytinga veitti stofnfjáreigendum heimild til að kjósa alla stjórnarmenn og gefa heimild til þess að breyta sparisjóði í hlutafélag. Þannig átti ekki lengur að takmarka starfsemi sparisjóða við það að tryggja lágan útlánakostnað og að hluti af hagnaði færi í samfélagslega uppbyggingu heldur var leyft að hagnaðurinn rynni til stofnfjáreigenda. Því miður var það þannig að þeir notuðu þessa heimild ekki bara til þess að taka út hagnaðinn af starfseminni heldur var það líka staðreynd að þeir áttu alla stjórnarmenn til þess að ástunda áhættusamar lánveitingar til sín og annarra tengdra aðila.

Dæmi um slíka eðlisbreytingu á starfsemi sparisjóða eru Byr, SPRON og Sparisjóður Keflavíkur sem nú eru allir komnir í þrot og starfsemi sparisjóðanna er í rannsókn hjá meðal annars rannsóknarnefnd Alþingis.

Í ljósi reynslunnar af hlutafélagavæðingu sparisjóðakerfisins er óskiljanlegt að verið sé að leggja til aðra hlutafélagavæðingu með það að markmiði að vekja áhuga fjárfesta á að leggja sparisjóðunum til aukið eigið fé.

Ég er þeirrar skoðunar að breyting á rekstrarformi muni ekki aðeins leiða til þess að meiri hætta verði á því að sparisjóðir fari út í áhættusama starfsemi heldur tel ég að mikil hætta sé á því að þessi breyting muni gera sparisjóðina að auðveldari bráð fyrir viðskiptabankana að yfirtaka. Ástæðan er sú að heimild til að breyta sparisjóði í hlutafélag tryggir ekki að viðskiptavinirnir komi allir hlaupandi og vilji eiga viðskipti við sparisjóðina eftir að búið er að breyta rekstrarforminu. Margir tryggir viðskiptavinir sparisjóðanna voru í sparisjóðum sem var breytt í hlutafélög. Ég nefni sem dæmi SPRON og Byr sem upplifðu það að sjóðurinn sem þeir völdu til að vera með innstæður sínar á tryggari stað en annars væri innan fjármálakerfisins var gerður af stofnfjáreigendum að einhvers konar vogunarsjóði. Lánaðir voru út miklir peningar til stofnfjáreigenda sem voru þá orðnir eigendur sparisjóðanna og tengdra aðila, jafnvel barna þessara eigenda. Margir tryggir viðskiptavinir sparisjóðakerfisins eru því brenndir eftir hlutafélagavæðinguna hinni fyrri og munu ekki færa viðskipti sín yfir í sparisjóðina við það að rekstrarforminu sé breytt úr sjálfseignarstofnun í hlutafélag. Auk þess eru margir tryggir viðskiptavinir fastir inni í viðskiptabönkunum vegna þess að þeir voru fluttir nauðungarflutningum í gegnum þrot SPRON, Byrs og SpKef núna til viðskiptabankanna. Þeir sitja þar fastir og til að geta fært sig aftur yfir í sparisjóðakerfið, þar sem því fólki mörgu hverju finnst það eiga heima af hugmyndafræðilegum ástæðum, þá þarf að greiða uppgreiðslugjald bankans auk stimpilgjalds sem rennur til ríkissjóðs.

Frú forseti. Ég tel að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir sparisjóðina nema ríkið eða við hér á þingi samþykkjum samhliða frumvarp framsóknarmanna um að afnema stimpilgjaldið. Þá geta viðskiptavinir fyrrum sparisjóða sem nú eru komnir í þrot fært sig yfir í nýtt eða endurreist sparisjóðakerfi. Þá ríkir líka á íslenskum fjármálamarkaði frelsi til að velja sér viðskiptabanka. Frelsið á fjármálamarkaði á Íslandi er fyrst og fremst frelsi banka til að stunda viðskipti og bjóða upp á ólík kjör og lánaform en ekki frelsi viðskiptavinanna til að velja sér þjónustuaðila eða viðskiptabanka.

Frú forseti. Þessi heimild mun ekki duga til að endurreisa sparisjóðakerfið. Það þarf eins og ég hef minnst á að fella niður stimpilgjöldin til að eyða þeirri markaðshindrun sem er núna, ekki bara fyrir þá sem vilja færa sig úr viðskiptabönkum sem ástunda fjárfestingarstarfsemi, eru þar af leiðandi áhættusamari en sparisjóðirnir sem eru bara með inn- og útlánastarfsemi, heldur líka fyrir þá sem vilja til dæmis eiga frekar viðskipti við banka sem er að einhverjum hluta í eigu ríkisins en ekki bara í eigu erlendra vogunarsjóða. Það er löngu kominn tími til, frú forseti, að viðskiptavinir eigi eitthvert val á fjármálamarkaði.

Eins og ég minntist á var lögum um sparisjóði breytt árið 2001. Ein breytingin sem ég tel að hafi reynst afar illa og eigi að taka til baka er að stofnfjáreigendum var veitt heimild til þess að skipa alla í stjórn sparisjóðs. Ég hef þar af leiðandi lagt fram breytingartillögu við þetta frumvarp, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir lagði reyndar fram vorið 2010 þegar við sátum saman í viðskiptanefnd, um að það skuli skipa fulltrúaráð með fulltrúum innstæðueigenda, starfsfólks, fulltrúum sveitarstjórna og stofnfjáreigenda. Fulltrúar stofnfjáreigenda mega ekki fara yfir 40% í fulltrúaráðinu til dæmis í Noregi. Ég tel að það sé mjög góð regla. Markmiðið er að vera með fulltrúaráð sem er skipað ólíkum hagsmunaaðilum sem eiga viðskipti við sparisjóðinn. Það eru þá innstæðueigendur, sveitarfélög sem eru oft mjög háð starfsemi sparisjóðsins, að hún sé þar á staðnum, og fulltrúum starfsfólksins, atvinnulýðræði eins og við þekkjum og er lítið af hér á landi og síðan fulltrúum stofnfjáreigenda. Það er von mín, frú forseti, að Alþingi samþykki að taka þessa heimild frá stofnfjáreigendum um að skipa alla í stjórn sparisjóðsins og setji inn norska ákvæðið um skipun fulltrúaráðs.

Ég samþykkti ekki þá breytingartillögu sem kom fram ef ég man rétt vorið 2010 vegna þess að þá var einmitt lofað af núverandi stjórnarflokkum að mótuð yrði framtíðarstefna fyrir sparisjóðakerfið. Sú stefna hefur ekki litið dagsins ljós. Það eina sem hefur komið fram er það frumvarp sem við ræðum í dag um að breyta megi sparisjóði í hlutafélag. Það eru mikil vonbrigði, frú forseti, ekki síst í ljósi þess að ég var kjörin hingað á þing fyrir flokk sem hefur alltaf lagt mikla áherslu á mikilvægi sparisjóðakerfisins á fjármálamarkaði. Nú stendur sá flokkur að þessu frumvarpi sem mun fela það í sér að eftir fimm ár verður að mínu mati ekki einn einasti sparisjóður starfandi á fjármálamarkaði meðal annars vegna þess að við ætlum að auðvelda þeim með þessari heimild að verða viðskiptabönkunum að bráð. Ég spái því, frú forseti, að viðskiptabankarnir sem eru nú þegar of stórir og þurfa annaðhvort að skera niður í starfsemi sinni eða sameinast öðrum fjármálastofnunum, eða bara yfirtaka litla sparisjóði til að tryggja starfsemi sína, þeir munu renna hýru auga til sparisjóðanna úti um allt land.

Sparisjóðirnir munu eiga erfitt með að verjast eins og ég minntist á áðan vegna þess að þá vantar viðskiptavini. Viðskiptavinirnir geta ekki komið til þeirra. Auk þess er engin tilraun gerð í frumvarpinu, hvorki í þessu frumvarpi né í stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarskipan á fjármálamarkaði, til að tryggja starfsemi sparisjóðanna þannig að þeir geti veitt víðtækari þjónustu. 21. gr. um starfsemi sparisjóðanna leyfir það að þeir stundi aðra starfsemi en inn- og útlánastarfsemi. Þeir gætu til dæmis selt tryggingar og þeir mega sinna póstþjónustu. Nú vitum við öll að einkaleyfi Íslandspósts á 500 gr bréfum og þar undir mun renna út á næsta ári.

Frú forseti. Ég hefði viljað sjá stefnu frá hinum svokölluðu vinstri flokkum sem ættu samkvæmt þeirri skilgreiningu að leggja áherslu á samfélagslegan rekstur um það að sparisjóðirnir tækju að sér víðtækari starfsemi úti á landi, þá ekki síst til að tryggja að sú starfsemi væri í boði á svæðinu. Þannig að þetta yrðu svona lánastofnanir, inn- og útlánastofnanir, auk þess sem þær sæju um að dreifa pósti á svæðin og seldu þar tryggingar. Ég get bara ekki skilið hvers vegna ekki er búið að vinna þá stefnumótun að setja sparisjóðina, þá fáu sparisjóði sem eru eftir, í slíkan farveg og tryggja lagalegan grunn fyrir slíkri útvíkkun og móta líka þá stefnu sem þarf til að þetta geri orðið að raunveruleika.

Frú forseti. Ég tel líka nauðsynlegt að skoða þetta frumvarp í ljósi framtíðarstefnu Bankasýslunnar sem var kynnt núna í vikunni og hefur lítið verið rædd, því miður, hér á þingi vegna annarra ágreiningsefna. En mikilvægt er að ræða hana vegna þess að þegar maður skoðar þá framtíðarstefnu kemur í ljós að hún felst í því að endureinkavæða viðskiptabankana. Það á ekki að byggja upp nýtt fjármálakerfi eftir hrun heldur á að endurlífga gamla fjármálakerfið sem hrundi með því að selja hlut ríkisins í viðskiptabönkunum og það án þess að mikið sé gert til þess að takmarka peningaprentunarstarfsemi bankanna. En eins og við vitum var ein ástæðan fyrir hruninu mikil útlánastarfsemi fyrir hrun sem leiddi til eignabólu sem síðan sprakk.

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því að við séum á leið í aðra fjármálakreppu vegna þess að við erum ekki að læra af hruninu og við erum ekki að taka á þeim göllum, kerfisgöllum, sem verður að gera til þess að varna öðru hruni.

Frú forseti. Ég vil að lokum segja þetta. Ég tel að ekki sé enn búið að styrkja rekstrargrunn sparisjóðanna og frumvarpið muni ekki gera neitt í þá átt. Það þarf að tryggja sparisjóðunum fjölbreyttan viðskiptahóp. Það er aðeins hægt að gera með því að tryggja frelsi viðskiptavina til þess að velja sér lánastofnun. Það er líka nauðsynlegt að taka tillit til þess í eiginfjárkröfum til sparisjóðanna að þetta eru áhættuminni lánastofnanir en til dæmis viðskiptabankarnir. Það að FME skuli gera 16% eiginfjárkröfu til sparisjóða er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt og eitthvað sem verður að taka á til þess að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðanna.

Frú forseti. Það þarf að víkka út starfsemi sparisjóðanna. Það er ekki bara vegna hagsmuna sparisjóðakerfisins sem ég tel að sé mikilvægt, það eru líka hagsmunir landsbyggðarinnar að sparisjóðirnir verði gerðir að alhliða þjónustustofnun, því að ef það verður ekki gert munu mörg byggðarlög úti á landi ekki búa við það sem við höfum talið lágmarksþjónustu, póstþjónustu, bankaþjónustu og aðra þjónustu.

Ég vil að lokum segja að þetta frumvarp, þessi heimild sem veitir sparisjóðunum leyfi til að fara úr sjálfseignarforminu yfir í hlutafélagaformið, mun að mínu mati þýða endalok sparisjóðakerfisins og eftir nokkur ár munum við vera með kannski tvo, þrjá viðskiptabanka sem allir standa í fjárfestingarstarfsemi og fólk mun þá ekki hafa neitt val um það hvort það vilji eiga viðskipti við áhættusamar stofnanir eða fjármálafyrirtæki vegna þess að þessar áhættusömu fjármálastofnanir eru búnar að gleypa sparisjóðakerfið. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum yfir metnaðarleysi núverandi ríkisstjórnar þegar kemur að því að endurreisa nýtt fjármálakerfi.