140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þau sjónarmið sem hún setur fram. Ég er þó ekki sammála þeim að öllu leyti.

Í lok 5. gr. er vísað í 3. mgr. 70. gr. og ég spyr: Getur verið að það eigi að vísa í 3. mgr. 72. gr. þar sem talað er um sameiningu hlutafélags og sparisjóðs með stofnbréf? Getur það verið og að þetta hafi farið fram hjá nefndinni við umfjöllun hennar? Ég vildi gjarnan að þetta yrði skoðað, frú forseti.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að til þess að flytja lánsviðskipti frá banka til sparisjóðs þyrfti að aflétta stimpilgjöldum og öðru slíku. Ég hef löngum talið stimpilgjaldið gjörsamlega úreltan skatt. Hann er að mörgu leyti skattur á fátækt og örbirgð því að þegar menn lenda í vandræðum og þurfa að skuldbreyta borga þeir stimpilgjöld út og suður. Þeir þurfa til dæmis að taka ný lán og víðast hvar borga menn stimpilgjald nema þeir fari einhverjar sniðugar leiðir þannig að ég er sammála því að það þurfi að afnema stimpilgjöld til þess að samkeppni myndist á þessu sviði og menn geti flutt lán á milli stofnana eða tekið lán á nýjum stað sem kostar stimpilgjald.

Ég tel miklu alvarlegra það atriði sem var rætt um í málinu á undan, um hringferlapeninga og hringeignarhald, og það er ekki búið að loka neitt fyrir það. Ef einhver kaupir hlut í sparisjóði, hvort sem það er stofnbréf eða hlutabréf, getur hann lent í því að eitthvert fólk yfirtaki sparisjóðinn með því að láta peningana í hring, með því til dæmis að gefa út gífurlegt magn af stofnbréfum, leggja inn hjá banka, bankinn lánar svo fyrir stofnbréfunum og peningurinn fer í hring og eignarhaldið breytist svo mikið að maður sem hélt að hann væri að kaupa 2% í sparisjóði á allt í einu bara 0,5%. (Forseti hringir.)