140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum (stofnstyrkir, frádráttarákvæði).

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um þetta mál. Á fund okkar kom Ingvi Már Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sveitarfélaginu Skagaströnd, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Byggðastofnun, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum og Orkustofnun. Almennt voru þessar umsagnir jákvæðar.

Þetta frumvarp inniheldur aðeins tvær efnisgreinar, gildistökugrein og grein þar sem lagt er til að lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar verði felldur brott.

Í 12. gr. gildandi laga er fjallað um fjárhæð og útreikninga styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna. Þar segir í 1. málslið að styrkur til hverrar hitaveitu geti numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Í lokamálslið greinarinnar kemur svo fram að frá styrkfjárhæðinni skuli dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar.

Í desember 2011 kom út skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar. Starfshópurinn var skipaður eftir að ríkisstjórnin samþykkti á fundi á Ísafirði 5. apríl 2011, þ.e. fyrir rúmu ári síðan, að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í þessari skýrslu kemur eftirfarandi m.a. fram, með leyfi virðulegs forseta:

„Leggur starfshópurinn til að ákvæði sem kveður á um að frá stofnstyrkjum hitaveitu skuli dreginn annar beinn og óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, verði lagt niður. Jarðhitaleit og boranir kosta svipað hvort sem leitað er að heitu vatni fyrir þúsund manna eða hundrað manna byggð. Það er verulega íþyngjandi fyrir smærri jarðhitaverkefni ef allur stofnstyrkur þurrkast út vegna þess opinbera fjármagns sem lagt var í jarðhitaleitina.“

Í þessari skýrslu segir einnig, með leyfi virðulegs forseta:

„Þar sem eðli jarðvarmaveituframkvæmda er að þeim fylgir hár stofnkostnaður en lágur rekstrarkostnaður ættu hærri stofnstyrkir að vega þungt í hagkvæmni slíkra framkvæmda. Til að tryggja enn frekari jarðvarmavæðingu er lagt til að viðmiðunartími stofnstyrkja verði rýmkaður […] í allt að 12 ár ef þörf krefur.“

Þrátt fyrir að nefndin hafi aðeins rætt þetta mál á tveimur fundum myndaðist fljótt veruleg samstaða um afgreiðslu málsins þannig að tekið yrði tillit til beggja framangreindra tillagna starfshópsins. Í upphaflegu frumvarpi var einungis tekið til þess atriðis að ef um væri að ræða einhverja tiltekna styrki sem viðkomandi hitaveituframkvæmd hefði fengið, t.d. ríkisstyrk af fjárlögum, yrði sú fjárhæð ekki dregin frá þeim stuðningi sem í því felst að hitaveituframkvæmd fær í átta ár að gildandi lögum ígildi þeirra framlaga sem fara til niðurgreiðslna sem ella hefðu verið inntar af hendi af hálfu ríkisins. Þannig er reynt að greiða niður fjárfestinguna og gera hana hagkvæmari. Í þeirri breytingartillögu sem hér er verið að mæla fyrir til viðbótar er hins vegar gert ráð fyrir því að tíminn sem má nota peningaígildi niðurgreiðslna til húshitunar til þess að lækka kostnað við fjárfestinguna, sem í gildandi lögum er átta ár, verði lengdur í tólf ár.

Þessi tími getur skipt mjög miklu máli fyrir þá sem eru að taka ákvarðanir um það hvort skynsamlegt sé að fara í fjárfestingar í hitaveitu. Með því að lækka fjármagnskostnaðinn og fjárfestingarkostnaðinn er hægt að stuðla að því að slíkar hitaveituframkvæmdir verði arðbærar sem ekki eru arðbærar í dag. Mér er kunnugt um dæmi þess að hitaveitur eða orkufyrirtæki hafa staðið frammi fyrir því að kjósa gjarnan að fara í slíkar hitaveituframkvæmdir en hafa ekki talið það forsvaranlegt fjárhagslega vegna þess að niðurgreiðsla á fjárfestingarkostnaði með því að heimila að nýta niðurgreiðsluféð sem ella færi til lækkunar á húshitunarkostnaði með rafmagni eða öðrum slíkum orkugjöfum, að nýta það fé til þess að lækka fjármagnskostnaðinn, dugi ekki ef aðeins er miðað við átta ár.

Þess vegna er sú breyting sem gerð er í meðferð nefndarinnar gífurlega þýðingarmikil. Hún kostar í raun ekki fjármuni fyrir ríkissjóð vegna þess að þetta eru peningar sem ella væru notaðir til þess að greiða niður húshitunarkostnað á hinum svokölluðu köldu svæðum. Það má því segja að með þessu sé verið að stuðla að því að nýta meira fé af niðurgreiðslupeningunum til þess að lækka niðurgreiðslurnar til lengri tíma litið. Þegar tólf ára tíminn líður fellur þessi niðurgreiðsla niður og menn njóta ávaxtanna af vel heppnaðri hitaveituframkvæmd

Þess skal getið að nefndin hafði áður fjallað um niðurgreiðslur til húshitunar eftir að hafa fengið kynningu á skýrslu þessa starfshóps sem ég nefndi hér áðan, um niðurgreiðslu húshitunar í janúar síðastliðnum. Að mati nefndarinnar er sú skýrsla mjög vel og fagmannlega unnin. Nefndin hvetur iðnaðarráðuneytið til þess að hraða vinnu við endurskoðun lagaumhverfis niðurgreiðslna húshitunar til samræmis við tillögur sem þar koma fram.

Þær tillögur sem nefndin hefur þá lagt á borð eru í því fólgnar að greiða niður að fullu dreifingarkostnað við rafmagn til húshitunar. Það hefur verið upplýst, meðal annars af hæstv. iðnaðarráðherra, að í dag dugar þessi niðurgreiðsla til að greiða niður dreifingar- og flutningskostnað um 2/3 eða svo. Þá vantar enn upp á 1/3 og það hefur verið áætlað að kostnaðurinn við að gera þetta gæti hlaupið á bilinu 500–700 millj. kr. Nefndin leggur líka til sérstaka fjármögnunaraðferð með því að leggja sérstakt gjald á selda raforku í landinu sem yrði mjög smávægilegt og mundi litlu skipta fyrir pyngju hvers og eins en mundi miklu muna fyrir þá 30 þús. landsmenn sem enn þá búa við þennan háa og mikla húshitunarkostnað. Það er mat nefndarinnar að frumvarpið feli í sér fyrsta skrefið í átt til betra fyrirkomulags niðurgreiðslna húshitunar. Því hvetur nefndin til þess að vinnunni við þetta mál sé hraðað. Ég hef áður gert grein fyrir því hvert er meginatriðið í tillögum nefndarinnar.

Í minnisblaði sem nefndinni barst frá Orkustofnun er fjallað um möguleg áhrif þess að miða stofnstyrki skv. 1. mgr. 12. gr. laganna við tólf ára áætlaðar niðurgreiðslur á rafmagni eða olíu til húshitunar, í stað átta ára eins og nú er. Þar er meðal annars bent á að þjóðhagslegur sparnaður jarðvarmaveitna byggist ekki einungis á minni þörf fyrir niðurgreiðslu af hendi ríkisins, eins og ég hef þegar rakið og fært rök fyrir, heldur einnig á því að hverja kílóvattstund af raforku sem sparast við rafhitun megi nýta á annan hátt. Þetta er mjög áhugavert sjónarmið sem segir okkur að þarna getum við verið að nýta það rafmagn sem ella færi til húshitunar til annarra þarfa, t.d. til þess að selja til nýrra atvinnufyrirtækja sem vilja hefja starfsemi. Það er oft spurt eftir því hvernig hægt sé að tryggja fyrirtækjum rafmagn og þarna er stigið að minnsta kosti eitt skref í þá átt að auka framboð á raforku til slíkra verkefna í stað þess að nýta hana til húshitunar, sem ekki er þörf á þar sem við getum nýtt heita vatnið til húshitunar í vaxandi mæli.

Mat stofnunarinnar er að raforkusparnaður sem verður við að taka jarðvarmaveitur í notkun sé hagstæð leið til að virkja eða losa um græna raforku til annarrar uppbyggingar. Þá bendir stofnunin líka á að útgjöld ríkissjóðs vegna stofnstyrkja til hitaveitna séu ólík hefðbundnum útgjöldum þar sem um fyrirframgreiðslu framtíðarniðurgreiðslna sé að ræða og eftir ákveðinn tíma verði heildaráhrif á útgjöld ríkissjóðs engin og eftir það fari ríkissjóður að spara, rétt eins og ég færði rök fyrir. Orkustofnun er með þessu í raun að taka undir þetta sjónarmið og kemur auðvitað ekki á óvart, það er svo augljóst að þannig er þetta.

Að auki bendir stofnunin á að upphæð stofnstyrkja miðist við þær niðurgreiðslur sem sparist í framkvæmd og að með hækkandi verðlagi hafi kostnaður við hitaveituframkvæmdir hækkað. Engu að síður hafi upphæð niðurgreiðslna ekki hækkað því til samræmis enda ekki tengd hreyfingum á verðvísitölu neysluverðs. Þetta er líka atriði sem er ástæða til þess að staldra við. Orkustofnun vekur þarna athygli á að margir kostnaðarliðir við hitaveituframkvæmdir hafa hækkað. Tökum til dæmis lagnir. Verð á járni og stáli og öllu því sem þarf við þær er háð innflutningsverðlagi. Gengi krónunnar hefur veikst, innflutningsverðið þar með hækkað óháð verðsveiflum að öðru leyti á þessum hráefnum á heimsmarkaði. Hins vegar hafa niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar lækkað á undanförnum árum að raungildi, reyndar mjög mikið núna síðustu fjögur, fimm árin, svo mjög að það er farið að valda mjög mikilli hækkun á húshitunarkostnaði í landinu, sem er algjörlega óviðunandi. Þess vegna er svo mikilvægt núna að leita allra leiða til þess að losa fólk úr þessum klafa sem það er núna höfuðsetið með og gríðarlega mikilvægt að það sé gert með því að stuðla að niðurgreiðslukostnaðurinn minnki og lækki sem þessu nemur.

Það er mat Orkustofnunar að átta ára stofnstyrkur núna sé lægri að raungildi en átta ára stofnstyrkur var árið 2005 og meðalupphæð niðurgreiðslna þyrfti að hækka um tæplega 50% til þess að halda í við verðvísitölu. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að lenging eingreiðslu áætlaðrar niðurgreiðslu á rafmagni eða olíu til húshitunar í tólf ár samsvari uppfærslu stofnstyrks til hitaveitna í samræmi við almennar verðlagshækkanir. Hér er verið að benda á að núna vanti upp á kannski 50% til þess að raungildi þeirrar niðurgreiðslu sem fer til að greiða niður fjárfestingar í hitaveitum, í gegnum það að niðurgreiðslum sem ella færu til lækkunar húshitunarkostnaðar er beint inn í fjárfestinguna, fylgi raungildi þessara upphæða árið 2005. Með því að lengja í stofnstyrkjunum úr átta árum í tólf ár komum við þessum niðurgreiðslum upp í það sem þær voru á árinu 2005. Lenging úr átta árum í tólf ár svarar þá til 50% hækkunar á þessu framlagi. Það má því segja að við séum ekki að hækka þetta í raun heldur aðeins að færa til þess horfs sem var árið 2005 þegar hér var gerð veruleg breyting á rekstrarumhverfi orkuveitna með því að aðskilja rekstur, dreifingu og framleiðslu og þá alla hluti eins og allir þekkja.

Að lokum birtir Orkustofnun mat á kostnaðaraukningu í tveimur töflum. Í fyrri töflunni þar sem sýndar eru þær stækkanir sem eru fyrirhugaðar eða í gangi, virðist stofnunin gera ráð fyrir 132,5 millj. kr. hækkun fjárframlaga. Í seinni töflunni þar sem sýnd eru þau verkefni sem stofnunin telur það langt komin í undirbúningi að réttlætanlegt sé að nefna þau, þó að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að ráðast í þau, virðist stofnunin gera ráð fyrir 302,45 millj. kr. hækkun fjárframlaga. Þetta er út af fyrir sig bara ánægjulegt. Það er ánægjulegt að vita að menn eru að reyna að huga að því sem víðast á landinu að fara í hitaveituframkvæmdir. Hitaveituframkvæmdir skipta mjög miklu máli og er ánægjulegt að vita að sveitarfélög og kannski einstaklingar séu að fara í svona framkvæmdir. Það lýsir stórhug og framfaravilja af hálfu þeirra.

Það skal tekið fram að í hvorugu tilvikinu virðist tekið tillit til áhrifa verðlagsbreytinga eða þess sparnaðar sem stofnun hitaveitu hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Því síður eru tekjur af sölu þess rafmagns sem annars hefði farið til húshitunar teknar með í reikninginn. Með öðrum orðum, þetta eru brúttótölur, ekki nettótölur, og áhrifin á ríkissjóð yrðu þess vegna minni eins og öllum má ljóst vera.

Það er álit nefndarinnar að efni þess frumvarps sem við höfðum til meðhöndlunar sé mjög jákvætt. Í því var hins vegar aðeins stigið agnarsmátt skref. Það má segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að taka eins og eina aukasetningu sem féll í skýrslu nefndarinnar, sem boðaði ákveðnar aðferðir við að lækka húshitunarkostnað, og gera hana að þessu frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði síðan fram. Þetta skref skiptir að vísu miklu máli fyrir einstök sveitarfélög sem eru í framkvæmdum og hafa fengið stuðning af hálfu ríkisins eða annarra aðila og ætla sér síðan að nýta niðurgreiðsluféð sem ella hefði runnið til þess að lækka húshitunarkostnað að óbreyttu til þess að lækka sinn fjármögnunar- og fjárfestingarkostnað. Það skiptir þessa aðila mjög miklu en í heildarumfanginu er þetta mjög lítið. Eins og mig rekur minni til gat verið um að tefla kannski 2 millj. kr. á ári að jafnaði síðustu tíu, fimmtán árin. Við erum því að tala um lágar tölur í sjálfu sér en stórar fyrir þau einstöku sveitarfélög sem í flestum tilvikum eru minni sveitarfélög og aðrir aðilar sem standa í þessum hitaveituframkvæmdum.

Nefndin telur þess vegna eðlilegt að hvatar til undirbúnings og stofnsetningar hitaveitu á köldum svæðum verði efldir. Leggur nefndin þess vegna til að stofnstyrksviðmið í 12. gr. laganna verði lengt úr átta árum í tólf, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, og nefndin leggur þess vegna til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem fram kemur í nefndarálitinu.

Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit skrifa auk mín sem hef tekið að mér hlutverk framsögumanns í forföllum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.