140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:30]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að minna hæstv. forseta á að hún er forseti allra þingmanna, líka þeirra þingmanna sem ekki hefur verið boðið að samningaborðinu um hvaða málum ber að ljúka fyrir þinglok. Ég vil því árétta mikilvægi þess að afgreiða mál um skuldavanda heimilanna sem bíða afgreiðslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og lyklafrumvarpið sem mér skilst að Norðmenn hafi innleitt í gjaldþrotalöggjöf sína í fjármálakreppunni sem þeir fóru í gegnum í byrjun 10. áratugarins.

Auk þess vil ég minna virðulegan forseta á þingsályktunartillögu um að Alþingi samþykki stuðningsyfirlýsingu við grísku þjóðina en samþykkt hennar mun styrkja samningsstöðu grísku þjóðarinnar í samningaviðræðum um betri kjör á lánum ESB og AGS.

Frú forseti. Það er von mín að þú takir beiðni mína til greina.