140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þeim fjölgar alltaf þessum föstu liðum á dagskránni. Nú hefur það gerst að hv. þm. Mörður Árnason hefur komið hingað upp til að greiða fyrir þingstörfum og farist það mjög vel úr hendi eins og fyrri daginn.

Það má rifja upp að það var ekki síst hæstv. forsætisráðherra sem sagði á sínum tíma að það væri eðlilegt að hér yrði sumarþing til að ljúka málum. Það hefur ekki staðið á okkur í stjórnarandstöðunni að mæta til slíkra funda og taka þátt í þeim. Okkur er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að halda áfram þingstörfum. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að nú nálgast forsetakosningar og það væri eðlilegt, eins og margoft hefur komið fram og m.a. hjá forsetaframbjóðendum á þessum degi, að gefa þeim aukið svigrúm í þjóðmálaumræðunni. Ég spyr hæstv. forseta hvort eigi ekki að taka tillit til þess.

Stjórnarandstaðan hefur margoft lýst miklum vilja sínum til að reyna að ná samkomulagi á undanförnum dögum. Það hefur ekki verið hægt vegna eintrjáningsháttar hæstv. ráðherra sem núna telja að þetta snúist um stolt sitt, þeir treysta sér ekki til að kyngja stolti sínu. (Forseti hringir.) Það er farið að ráða þingstörfunum að hæstv. ráðherrar horfa á þetta frá eigin sjónarhóli (Forseti hringir.) og eigin persónu og það er að trufla þingstörfin þessa dagana.