140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Forseti. Við formann Sjálfstæðisflokksins vil ég segja að bæði dæmið af honum sjálfum og dæmið af Grikklandi í gær sýnir að menn eiga aldrei að gefa sér niðurstöðu kosninga fyrir fram.

Að öðru leyti kem ég hingað til að segja að ég hef fullt traust á störfum forseta og mér finnst að forseti hafi staðið sig vel við að reyna að leiða þingið til lykta. Ég vil líka lýsa yfir ánægju minni með þann samkomulagsvilja sem mér finnst koma fram í máli stjórnarandstöðunnar á þessum morgni. Ég hef mörg þinglokin lifað og veit að þegar menn leggja sig fram, jafnvel þótt í eindaga sé komið, brestur oft á með samningum sem í stöðinni eru þolanlegir. Auðvitað hefði ríkisstjórnin gjarnan viljað sjá miklu fleiri málum fram þokað og stjórnarandstaðan veit það. En ég met þennan samkomulagsvilja og held að við eigum að reyna að nota hann og beita þessum degi til að ná þinginu við þessar sérkennilegu aðstæður til þolanlegra lykta sem allir geta að einhverju marki sætt sig við, þó að þeir kannski vildu sjá veruleikann pínulítið öðruvísi.