140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[10:58]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir á þessu nefndaráliti þannig að ég vil endilega að það verði samþykkt. En mér fannst athyglisvert að heyra vangaveltur hv. þingmanns um þær breytingar sem hún upplifir og við upplifum kannski mörg að séu að verða á samfélaginu, þ.e. þá tilhneigingu að fólk þurfi í auknum mæli að leita til dómstóla til að greiða úr málum sínum í staðinn fyrir að fara hefðbundnari leiðir og semja um slík mál.

Ákveðinn tónn var kannski sleginn þegar ríkisstjórnin tilkynnti hvernig hún ætlaði að leysa úr skuldavanda heimila með því að lögfræðivæða vandann þannig að þær fjölskyldur sem ættu í skuldavanda ættu að leita til lögfræðings sem fylgdi síðan fjölskyldunum inn í héraðsdóm með því neyðarlega ferli sem slíkri vegferð fylgir. Á margan hátt hefur ríkisstjórnin því dómstólavætt þann vanda sem blasir við okkur.

Þegar við horfum til skuldavanda heimila og fyrirtækja þá hafa reyndar dómstólarnir fyrst og fremst skilað heimilum og fyrirtækjum réttindum, þ.e. staðið vörð um hagsmuni þeirra með tilliti til gildandi laga. Mestu kjarabætur heimila og fyrirtækja hafa sem sagt komið fram með úrskurði Hæstaréttar, ekki með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það er kannski það dapurlega að eftir eitt stærsta efnahagshrun í sögu þjóðarinnar skulum við búa við ríkisstjórn sem vill frekar neyða fólk til að leita réttar síns fyrir dómstólum en leggja til almennar leiðréttingar og aðgerðir fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki.