140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:02]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í þeim efnum að það er ekki beint hægt að sjá norrænan velferðarstimpil á verkum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skuldamálum heimila og fyrirtækja í landinu. Það grátlega er að skjaldborgin um heimilin hefur snúist upp í andhverfu sína. Í raun og veru hefur ríkisstjórnin fyrst og fremst tekið stöðu með kröfuhöfum. Ein stærsta einkavæðing síðustu ára hefur átt sér stað og nú eiga einhverjir vogunarsjóðir stærstu banka landsins sem ganga eðli málsins samkvæmt mjög hart gagnvart heimilunum í landinu enda ætla þeir sem eiga þessa banka að ná sem mestu út úr heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Það upplagða tækifæri í kjölfar hrunsins að láta kröfuhafana bera í meira mæli þann skaða sem varð í kjölfar efnahagshrunsins varð ekki raunin og þess vegna stöndum við í þeim sporum við gerum í dag. Það er miður og við hv. þingmaður höfum sameinast um það í þinginu að leggja fram mörg mál sem hefðu getað stuðlað að því að staðan væri önnur í dag. Við hefðum getað minnkað vandann strax í upphafi ársins 2009 með því að fara í almennar leiðréttingar gagnvart heimilum og fyrirtækjum í landinu. Þannig hefðum við minnkað þann vanda sem skuldamálin eru og þar með hefðum við kannski getað unnið hraðar úr þeim erfiðu málum sem almenna leiðréttingin hefði ekki getað náð til. En því miður er það tækifærið farið frá okkur. Það var einstakt tækifæri og ábyrgðina á því ber að sjálfsögðu sú ríkisstjórn sem nú situr en á sem betur fer ekki marga daga eftir í valdastólum.