140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, vörslusviptingu innheimtuaðila.

Ef frumvarpið verður að lögum batnar réttur skuldara sem eru í vanskilum með afborganir og lánakostnað. Áður en lausafé er tekið úr vörslu skuldara þá skal skuldari hér eftir láta í té skriflegt samþykki sitt fyrir vörslusviptingunni. Það er ljóst að í sumum tilfellum hefur afhending muna verið framkvæmd með samþykki skuldara en í öðrum tilvikum án slíks samþykkis og þá jafnvel þannig að skuldari hefur ekki fengið vitneskju um sviptinguna fyrr en eftir að hún hefur farið fram. Öll höfum við heyrt sögur af fólki sem hefur vaknað að morgni og ætlað út í bíl sinn og þá hefur bíllinn verið horfinn, um vörslusviptingu hefur verið að ræða.

Bent hefur verið á að vafi geti verið um réttmæti þeirra lánasamninga sem um teflir og að í sumum tilvikum kunni fjármögnunar- leigufyrirtækin að hafa svipt umráðamenn lausafjár vörslu þeirra þegar slíkur vafi er fyrir hendi. Það er augljóst að sé vörslusvipting framkvæmd við slíkar aðstæður þá er það afar varasamt. Öll vitum við að lán sem hafa verið gengistryggð eða gengisbundin vísitölu erlendra gjaldmiðla hafa verið dæmd ólögmæt. Ef vörslusvipting á grunni þessara ólögmætu lána hefur átt sér stað er augljóst að það er mjög varasamt að gera það og það er verið að brjóta á rétti fólks.

Þessi lagabreyting á að koma í veg fyrir þetta. Skuldari skal jafnan gefa skriflegt leyfi eða samþykki við afhendingu lausafjármuna. En þetta skapar náttúrlega viss vandamál og setur aukna kröfu á dómstóla vegna þess að ef fólk samþykkir ekki vörslusviptinguna eða vefengir hana þarf málið að fara fyrir dómstóla. Því er afar brýnt að dómstólar afgreiði beiðnir lánardrottna og kröfuhafa fljótt. Þrátt fyrir allt eiga kröfuhafar stjórnarskrárbundin réttindi sem felast í eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Sú staða getur komið upp að óprúttnir aðilar, sem til dæmis hafa ekki borgað af bílum sínum og hafa aldrei ætlað sér að borga af bílum sínum, neiti einfaldlega að afhenda lausafjármunina, það fari fyrir dómstóla og veltist þar í einhverja mánuði og á meðan nota þeir lausafjármunina. Það er ótvírætt að þar er verið að brjóta á kröfuhöfum. Það er því nokkuð ljóst að um leið og réttur neytenda eða skuldara er aukinn er verið að skerða rétt kröfuhafa. Þetta er allt ákaflega vandmeðfarið og mikilvægt að dómstólar hraði sem frekast þeir geta afgreiðslu mála þar sem skuldarar neita að gefa skriflegt samþykki sitt fyrir afhendingu lausafjármuna.

Hafandi sagt það þá er ljóst að frumvarpið bætir réttarstöðu neytenda og það er af hinu góða. Þess vegna styð ég það enda er ég á nefndaráliti sem einn af nefndarmönnum efnahags- og viðskiptanefndar og fagna þessu því.

Að lokum vil ég hvetja dómstóla til að afgreiða þau mál sem þeir fá til meðferðar eins fljótt og vel og hægt er til að réttindi kröfuhafa skerðist ekki úr hófi fram.