140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:21]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er ágæt umræða og þörf og hefur hv. þingmaður sem hóf umræðuna nefnt þetta nokkrum sinnum við mig. Ég ræddi þetta við virðulegan forseta í morgun.

Við breytingar á nefndaskipan sl. haust komst ákveðið flot á hvert mál voru send. Marga rak t.d. í rogastans þegar barnalögin eins og þau lögðu sig voru sett í velferðarnefnd. Rökin voru að þau sneru að velferð barna. Hvað þá með skólamál? Snúa þau ekki að grundvallarvelferð barna? Á ekki að senda öll skólamál yfir í velferðarnefnd en ekki menntamálanefnd? Þetta er óheppilegt. Þetta skaðar feril máls. Þetta gerir að verkum að jafnvel er verið að tvívinna sama mál sem skarast í tveimur nefndum.

Við erum að ræða um innheimtulög. Við erum búin að eyða miklum tíma í það í allsherjar- og menntamálanefnd að vinna að lögum um nauðungarsölu og fleira sem þrælskarast og svo fáum við þetta til umsagnar. Þetta er fráleitt vinnuferli og ég fer þess eindregið á leit við forseta og forsætisnefnd að þetta verði skoðað og verði í miklu skarpari og skýrari farvegi næsta haust (Forseti hringir.) en verið hefur í vetur, málunum sjálfum til skaða og tjóns.