140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um þetta mál en mig langaði samt að koma hingað og vekja aðeins athygli á hvað við erum í raun og veru að gera. Þetta frumvarp sem hefur verið afgreitt og við samþykkjum vonandi er nokkuð sem við ættum ekki að þurfa að gera. Það eru lög í landinu og sú meginregla er í gildi að einstaklingar eða fyrirtæki geta ekki tekið rétt sinn sjálfir heldur þurfa að fá atbeina handhafa ríkisvaldsins til þess að fá samning efndan eða ná í einhvern hlut sem þeir telja sig eiga. Engu að síður hefur það liðist að fjármálafyrirtæki hafa getað nýtt sér þjónustu fyrirtækja sem sérhæfa sig í vörslusviptingum og bara náð í það sem þau vilja. Það er í raun ótrúlegt að nú nærri því fjórum árum frá hruni líðist þetta enn. Það er ekki eins og ekkert hafi verið reynt til að stöðva þetta. Ég vil t.d. minna á að dómsmálaráðherra gaf út tilmæli þar sem fólk var beðið um að fara að lögum í þessum málum og ítrekað að það þyrfti atbeina dómstóla fyrir vörslusviptingu, en það var algerlega án árangurs. Mér finnst þetta mál eiginlega endurspegla það ástand sem við búum við, það ægivald sem fjármálafyrirtæki hafa hér á landi. Fyrir hrun horfðum við upp á að allt snerist um fjármálafyrirtækin, þau voru eins konar ríki í ríkinu, og ríkisvaldið missti völdin í landinu til fyrirtækjanna. Að mínu mati hefur ríkisvaldið ekki náð þessum völdum aftur. Þessar vörslusviptingar eru kannski eitt skýrasta dæmið um það að fjármálafyrirtækin fara sínu fram.

Það er mjög sorglegt að fara þurfi í lög og skýra þau í raun aftur þegar þau lög sem eru í gildi eru alveg skýr. Það má enginn taka einhverja hluti sem aðrir hafa. Þetta lærum við öll í leikskólum. Þetta er meginreglan í íslenskum lögum. Jafnvel þótt ég láni Lilju Mósesdóttur þingmanni reiðhjól og hún fari á því heim til sín má ég ekki fara inn í garðinn hennar og ná í það. Ég þarf að hafa samband við hana og biðja hana um að skila mér hjólinu aftur. Það er meginreglan, þannig er það. Jafnvel þótt ekkert sé deilt um eignarhaldið þarf að biðja um leyfi.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég held að þetta mál allt saman sýni að ríkisvaldið sem ætti að hafa það hlutverk að vernda borgarana og fyrirtækin í landinu hefur of lengi setið á hliðarlínunni og þær aðgerðir sem þó hefur verið ráðist í hafa verið of máttlausar. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta.