140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú er í sjálfu sér jákvætt. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur tekið málið fyrir, farið yfir það og komist samhljóða að niðurstöðu og flytur þetta frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum sem lýtur að vörslusviptingum innheimtuaðila. Kjarni málsins kemur fram í 2. gr. frumvarpsins eins og það lítur út núna, með leyfi virðulegs forseta:

„Innheimtuaðili skal, hvort sem er við frum- eða milliinnheimtu, afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslum skuldara, enda sé skuldari í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Skal innheimtuaðili jafnframt láta skuldara í té afrit skriflegs samþykkis í síðasta lagi samtímis afhendingu lausafjármunar. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir verður innheimtuaðili að leita aðfarar eftir reglum aðfararlaga, nr. 90/1989.“

Áttum okkur aðeins á hugtökum. Vörslusvipting felur það í sér að sá sem er eigandi lánsins og hefur tryggingu með einhverjum hætti í tiltekinni eign, nýtir vörslusviptingu sem sitt síðasta úrræði við innheimtu á skuld sem er komin í vanskil. Auðvitað eru það ekki hagsmunir þess sem á kröfuna að beita þessu úrræði í tíma og ótíma. Hagsmunir kröfuhafans hljóta alltaf að liggja í því fyrst og fremst að reyna að ná niðurstöðu með skuldaranum um greiðslu skulda. Almennt eru langflest lán greidd á gjalddaga eða eindaga en svo geta komið tímabil af mjög mörgum ástæðum þar sem skuldarinn ræður ekki við skuldbindingar sínar. Það er ekkert óeðlilegt við það, fjarri því, ekki síst núna þegar orðið hafa þessar miklu forsendubreytingar sem við þekkjum, gengisfall íslensku krónunnar, lán hafa verið bundin gengisviðmiðum sem hafa núna verið dæmd ólögleg, lán hafa stökkbreyst vegna þess að verðbólga fylgdi í kjölfar gengislækkunarinnar á sínum tíma og skuldirnar hækka á sama tíma og verð eigna hefur ekki fylgt því. Það hefur fyrst og fremst haft áhrif á greiðslugetu þess sem tók lán á sínum tíma við allt aðrar aðstæður sem hann á síðan oft í erfiðleikum með að standa undir, af ástæðum sem hann gat ekki séð fyrir á þeim tíma. Við þekkjum þessa sögu.

Þessi lán voru tekin í mjög stórum stíl, þ.e. menn tóku lán, sem kölluð voru í daglegu tali erlend lán, þau voru greidd út í íslenskri mynt en hins vegar höfð á þeim gengistrygging eða gengisviðmiðun. Það eru þessi lán sem dómstólar hafa nú verið að dæma ólögleg og hafa valdið því að skuldarar hafa fengið leiðréttingu sem þessu nemur. Og það er auðvitað athyglisvert þegar við skoðum þróun skulda heimila og fyrirtækja. Þær skuldalækkanir sem fyrirtæki og einstaklingar hafa fengið hafa að langmestu leyti stafað af því að dómstólar hafa kveðið upp úr um að þessi lán sem ég var að lýsa hafa reynst vera ólögleg. Þau stóðust ekki íslensk lög.

Við þurfum ekki að dvelja lengi við fortíðina, þessi umræða fór fram á sínum tíma. En það kemur sem sagt nú í ljós að skuldalækkanir heimila og fyrirtækja stafa af því að þessi tilteknu lán hafa reynst vera ólögleg. Ég hygg að ég hafi séð það nýlega, m.a. í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þar er rakin sú skuldalækkun sem hefur orðið hjá heimilunum. Hún er umtalsverð og sama má segja um skuldalækkun hjá mörgum fyrirtækjum. Það sem er eftirtektarvert er að þessi skuldalækkun verður að mjög litlu leyti á grundvelli þeirra laga sem Alþingi hefur verið að setja, svo sem 110%-leiðinni, hraðferðinni sem fyrirtækin áttu að fá með skuldaúrlausn sína og sértækri skuldaaðlögun með atbeina umboðsmanns skuldara. Það eru litlu upphæðirnar í rauninni þegar við skoðum heildarsamhengið. Stóru upphæðirnar má rekja til þess að þessi tilteknu lán hafa verið dæmd ólögleg. Ég held að ég muni töluna rétt úr skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, hún er í samræmi við þá samantekt sem Samtök fjármálafyrirtækja gerðu upp úr áramótunum og birtu á heimasíðu sinni. Skuldalækkunin sem stafar af þessum orsökum nemur um 160 milljörðum kr. Aðrar tölur eru samanlagt kannski um 40 milljarðar kr. Við getum sagt að skjaldborgin um heimilin hafi orðið vegna dómsniðurstöðu Hæstaréttar og héraðsdóms þar á undan.

Hins vegar er líka ljóst að það ríkir enn þá gríðarleg óvissa vegna gengislánadóma. Fyrir fáeinum vikum féll til dæmis dómur í máli þar sem um var að ræða lán sem bankastofnun, fjármálastofnun, hafði veitt einstaklingi eða fyrirtæki þar sem upphæðin var skráð á forsíðu lánapappíranna í erlendri mynt. Niðurstaða dómstólsins í því máli sérstaklega var sú að slík lán stæðust lög og væri klárlega um að ræða erlend lán. Fyrir fáeinum dögum féll líka annar dómur sem laut að því að aðili hafði tekið erlent lán hjá fjármálastofnun og í ljós kom að þar var um að ræða klárlega erlent lán. Sá hafði fengið greitt út í erlendri mynt og ráðstafað þeim fjármunum. Það lán var löglegt. Við höfum því orðið nokkuð margar útgáfur af þessum lánum og við vitum að lánasamningarnir voru býsna margvíslegir. Alþingi reyndi að bregðast við með lagasetningu á sínum tíma þar sem niðurstaðan var sú að öll þessi erlendu lán ætti að meðhöndla sem íslensk lán og reikna vexti af þeim í samræmi við það. Eitt slíkt lánaform var til dæmis það þar sem lánið var skráð í erlendri mynt á forsíðu lánapappíranna. Nú hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að Alþingi hafi í raun verið að fara gegn lögum um meðferð slíkra lána. Þá vakna strax spurningar um það hver sé ábyrgur í þessum efnum. Er það lánastofnunin? Augljóslega hlýtur líka að vakna sú spurning hvort ríkisvaldið, vegna atbeina Alþingis, hafi stofnað til einhvers konar skaðabótakröfu. Það var eitt af því sem hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra nefndi þegar þessi mál voru til umræðu að það kynni að vera, ef Alþingi gengi of langt í lagasetningu varðandi meðferð skulda af þessu tagi, að það mundi stofnast til skaðabótakröfu frá lánastofnunum sem teldu sig hlunnfarnar eða eftir atvikum einstaklingum sem teldu sig hlunnfarna. Þessi mál eru þannig fjarri því að vera einföld.

Það hefði því verið mjög nauðsynlegt að koma öllum þessum málum á hreint. Það hefur verið sagt frá því og hæstv. ráðherrar hafa nefnt að það séu kannski tíu, tólf gengislánamál sem nú eru háð fyrir dómstólum sem mundu skýra þessa mynd mjög mikið. Hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra greindi frá því í umræðum þar sem ég tók þátt að það væru kannski eitthvað á annað hundrað mál þar sem hugtakið gengislán kæmi við sögu. Ef niðurstaðan er sú að tíu til tólf slík mál gætu verið stefnumarkandi fyrir það hvernig leysa eigi úr þessu, hefði verið eðlilegt að reyna að greiða fyrir þeim hjá dómstólunum til að fá skýra mynd á þetta. Þess vegna var það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti frumvarp á árinu 2010 um að þessi mál fengju sérstaka flýtimeðferð fyrir dómstólum. Ég verð að segja að það kom óþægilega á óvart þegar viðbrögð stjórnvalda voru mjög neikvæð gagnvart þeirri hugmynd um að greiða fyrir þessum málum í gegnum dómstólana og leysa þannig úr þeirri óvissu sem er sannarlega til staðar. Þessi óvissa getur valdið því að upp kann að rísa ágreiningur þegar og ef fjármögnunarfyrirtæki og fjármálafyrirtæki telja sig knúin til að svipta menn yfirráðum yfir eignum sem þeir hafa haft undir höndum á grundvelli þess að þeir hafa vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart fjármálafyrirtækjunum. Oft er um að ræða bíla en auðvitað getur verið um að ræða aðra lausafjármuni.

Með öðrum orðum, ef sú leið hefði verið farin strax haustið 2010 sem lögð var til í frumvarpi Sigurðar Kára Kristjánssonar og okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins værum við væntanlega búnir að leysa úr þessari óvissu. Þá værum við ekki í þeim sporum sem við erum í dag. Við erum í þeim sporum að núna er óvissa uppi. Hverjar eru skuldirnar í rauninni? Skuldar tiltekinn skuldari tiltekna upphæð eða er hún lægri eða er hún hærri? Við vitum það ekki að öllu leyti vegna þess að lánasamningarnir eru svo margbrotnir og margvíslegir að það er mjög erfitt að átta sig á því hvort við séum að tala um raunverulegar skuldir eða bara skuldir á pappírnum sem kunna svo að breytast með því að lánasamningarnir verða dæmdir ólöglegir eða ekki ólöglegir. Allt er þetta ákaflega óljóst.

Þá vaknar þessi spurning sem hlýtur að vera mjög ofarlega á baugi: Á Alþingi að grípa inn í með beinni lagasetningu og hafa áhrif á það og segja til um það hvernig farið er með þessi mál? Þessarar spurningar spurði ég á fundi sem efnt var til eftir frægan dóm frá því fyrr í vetur ár sem tiltekið lánaform var dæmt ólöglegt. Ég spurði þá lögmenn sem höfðu framsögu á þessum fundi sem voru menn sem höfðu flutt nákvæmlega þessi mál, Mótormax-málið fræga og annað tiltekið mál, og svar þeirra beggja var mjög afdráttarlaust: Nei. Alþingi á ekki að gera það. Við verðum að láta þessi mál hafa sinn gang og það verður ekki greitt úr þeim nema fyrir dómstólum. Þess vegna er einmitt svo áríðandi að þessi mál fái hraða úrlausn vegna þess að um er að ræða gríðarlega mikla hagsmuni, bæði fyrir skuldarana sem vita í raun ekki hver staða þeirra er og kunna að vera að borga af ólöglegum lánum sem valda þeim miklum erfiðleikum, og kröfuhafann sem veit ekki með vissu hvort þær kröfur sem hann hefur fært í bækur sínar sem eign séu í raun og veru eign eður ei. Þetta vildi ég láta koma fram.

Það væri líka ástæða til að ræða þessi mál frá þeim sjónarhóli sem hefur aðeins verið ræddur, og það er að hér er um að ræða tvo aðila sem eiga sjálfstæðan rétt. Annars vegar eigandi eignarinnar sem er skuldarinn sem hefur sinn mikilvæga rétt byggðan á einkaeignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og svo kröfuhafinn sem á sinn rétt. Báðir eru settir í óþolandi stöðu vegna óvissunnar. Og vegna þessarar óvissu geta komið upp tilvik þar sem kröfuhafi fylgir eftir kröfu sinni sem síðasta úrræði, eins og ég hef nefnt áður, með því að vörslusvipta einstakling eigum sínum af ástæðum sem eru til staðar um vanefndir á skuldum o.s.frv. Þá koma upp þau álitamál sem ekki er hægt að svara við þessar aðstæður nema þá að dómstólar hafi að því atbeina. Væntanlega ganga vörslusviptingarnar almennt einfaldlega fyrir sig en í einstökum tilvikum verður bara leyst úr málum með því að bera þau undir dómstóla. Það er í rauninni það sem verið er að leggja til í frumvarpinu. Ef um er að ræða umdeilda kröfu verði kröfuhafanum ekki heimilt að yfirtaka eignir til að fullnusta kröfu sína með vörslusviptingu nema áður hafi verið aflað úrlausnar dómstóla. Það má því segja að þetta frumvarp sé tvíþætt. Annars vegar er verið að tryggja rétt neytandans, skuldarans í þessu tilviki, og hins vegar að skýra réttarstöðu kröfuhafans sem er eigandi skuldarinnar, sem er líka nauðsynlegt að greiða úr.

Virðulegi forseti. Þetta mál er dálítið margslungið. Þetta er í eðli sínu gott mál af því að það tryggir og skýrir stöðu beggja, skuldarans og lánardrottins, en um leið er þetta vitnisburður um það hversu hörmulega menn hafa unnið úr þessum málum á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir allt ríkir enn óvissa um gengislánin. Það er búið að greiða úr hluta þeirra mála og það hefur valdið því að skuldir heimilanna hafa lækkað um 160 milljarða kr. samkvæmt fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans, en enn þá eru óleyst fjölmörg mál. Þau mál hefðu verið komin í heila höfn og lægi fyrir um stöðu þeirra ef menn hefðu fallist á það sjónarmið að tryggja að dómstólar færu með þessi mál í flýtimeðferð. Þá hefði mátt lýsa þá stöðu skuldara og fjármálafyrirtækjanna sem annars er svo óljós og þess vegna ber að harma að svo hafi farið. Við erum í raun sett í þá stöðu að Alþingi verður að bregðast við við þessar aðstæður vegna sleifarlags stjórnvalda. Hér er það gert með því að tryggja að mál sé fyrst borið undir dómstóla ef um er að ræða ágreining um rétt til þess að vörslusvipta einstakling eða fyrirtæki eignum sínum vegna meintra vanefnda.

Með öðrum orðum, ég tek undir þetta frumvarp og mun styðja það þó ég geti ekki sagt beinlínis að ég fagni því. Það er ekki hægt að fagna því vegna þess að það hefði verið alger óþarfi að leggja það fram ef rétt hefði verið brugðist við. En í þessa stöðu hefur okkur verið komið vegna sleifarlags stjórnvalda og við verðum að horfast í augu við það og vinna málin út frá því. Ég trúi því að þetta mál muni þess vegna fá jákvæða afgreiðslu á Alþingi.