140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum (vörslusviptingar innheimtuaðila). Þetta er mál sem flutt er af efnahags- og viðskiptanefnd. Ég gerði við það athugasemd, undir liðnum fundarstjórn forseta, að þetta mál væri til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel að mál sem varða innheimtur og réttarfarsatriði almennt, bæði samkvæmt þingsköpum og eins samkvæmt þeirri hefð sem ríkir í störfum okkar, eigi heima í allsherjarnefnd.

Ég hef áður fjallað um það í þessum stól að mér finnst sem mikil lausung sé komin á meðferð mála í þinginu og ég tel að það sé mjög alvarlegt. Af því getur skapast hætta á ruglingi, að við töpum yfirsýn yfir það sem við erum að gera hér og eins gerir það þingmönnum erfitt fyrir að fylgjast með atriðum er varða aðrar nefndir en þeir sitja sjálfir í. Ég hef til dæmis mikinn áhuga á öllu sem varðar íslenskt réttarfar og fylgist því með hvaða mál eru til umfjöllunar í allsherjarnefnd og tel þá rétt að einbeita mér að því. Ég tel ókleift að fylgjast náið með öllum þeim málum sem stafa frá nefndum þegar þau fjalla um málaflokka sem erfitt er að átta sig á að séu allt í einu felldir undir starfssvið nefndarinnar.

Það eina sem ég get ímyndað mér að hér hafi gerst er að menn hafi talið að þetta mál varði skuldavanda heimilanna. Sú ákvörðun var tekin á einhverjum tímapunkti hér í þinginu að efnahags- og viðskiptanefnd skyldi hafa skuldavanda heimilanna til umfjöllunar. Skilgreining á því verkefni að leysa skuldavanda heimilanna liggur að sjálfsögðu ekki fyrir og við getum ekki, þrátt fyrir að skuldavandi heimilanna sé stór og mikill vandi, fellt úr gildi allar þær reglur og viðmið sem við höfum haft í þinginu varðandi meðferð mála. Hvaða áhrif hefur það til framtíðar litið? Eiga þá öll mál er varða innheimtu og ýmis réttarfarsatriði, aðfarargerðir þess vegna, hér með heima í efnahags- og viðskiptanefnd? Hvernig á þetta eiginlega að vera, frú forseti? Ég tel þetta algerlega ófært og vonast til þess að forsætisnefnd taki málin til gagngerrar endurskoðunar hið fyrsta.

Frú forseti. Við fjöllum um breytingu á innheimtulögum. Menn virðast vera mjög sammála í nefndinni um afgreiðslu þessa máls. Undir nefndarálit skrifa fulltrúar allra flokka — reyndar virðist Hreyfingin aðeins eiga áheyrnarfulltrúa í nefndinni — þannig að mikil samstaða hlýtur að vera um það í þinginu að fara með þessar breytingar í gegn. Ég hef í miklum flýti reynt að kynna mér um hvað þetta allt saman snýst. Það besta sem maður getur gert er að fara yfir þær athugasemdir sem hafa borist.

Eingöngu tveir aðilar hafa veitt umsögn um þetta mál og það eru Lýsing og Samtök fjármálafyrirtækja. Þar sem aðeins tveir aðilar hafa veitt umsögn um málið þá er tvennt í stöðunni, annaðhvort að málið hafi verið unnið það vel að enginn geri við það athugasemdir eða þá að það hafi verið unnið svo hratt að menn hafi haft lítil tök á að senda inn athugasemdir. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það frá nefndarmönnum, ef þeir hafa þær upplýsingar, hvort vinnulagið var viðhaft í þessu máli en báðar umsagnirnar berast í júní, önnur 1. júní og hin 6. júní. Ég hefði talið líklegt að í máli sem þessu hefði til dæmis borist umsögn frá innheimtumönnum og eins frá þeim sem annast þessar gerðir. En þær umsagnir hafa ekki borist, alla vega ekki ef marka má vef Alþingis.

Athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja eru um margt athyglisverðar. Talað er um að rangt sé farið með hugtök. Bent er á það í fyrri frumvarpsgreininni, sem hér er gert ráð fyrir að verði að lögum, að „við lokamálslið 2. mgr. 1. gr. laganna bætist: þar með talið vörslusviptingu“, til að koma þessu inn í innheimtulögin. Um þetta segja Samtök fjármálafyrirtækja, með leyfi forseta:

„Vert er að benda á að hugtakanotkun í lögum þarf að vera skýr. Í 1. gr. frumvarpsins er hugtakið vörslusvipting notað án þess að leitast sé við að skilgreina hvað átt er við. Skilningur SFF er sá að endurheimta tækja utan réttar telst ekki vera vörslusvipting en vörslusvipting er aðfarargerð, framkvæmd af sýslumanni eða í umboði hans. Áður en vörslusvipting er heimiluð þarf að afla aðfararhæfs dómsúrskurðar í flestum tilvikum eða staðfestingu á aðfararhæfi skuldabréfs eða réttarsáttar, framkvæma fjárnám í lausafé og óska eftir uppboði á veðandlaginu. Í tilvikum eignaleigunnar eiga sér engar slíkar aðfarargerðir stað fyrir fullnustu enda er endurheimt eigna almennt ekki opinber réttargerð, nema sá aðili sem hafði samningsbundin umráð tækis fullnægi ekki samningsbundinni skyldu sinni að skila leigumun aftur til leigusala eða neitar að afhenda tækið af fúsum og frjálsum vilja. Í slíkum tilvikum er farið í innsetningargerð sem er önnur réttargerð en vörslusvipting.“

Mig langar að spyrja hvort það geti verið að hugtakanotkun sé eitthvað á reiki eins og hér er bent á. Ég sé ekki af nefndarálitinu að neitt sé farið í þessar athugasemdir, að nefndin hafi tekið eitthvert sérstakt tillit til þeirra. Ég sé ekki að nefndin svari því hvort þessar fullyrðingar frá Samtökum fjármálafyrirtækja eigi við rök að styðjast eða hvort gengið hafi verið úr skugga um að svo væri ekki. Nefndarálitið ber það alla vega ekki með sér.

En fleiri atriði eru reifuð í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja. Að mati samtakanna virðist frumvarpinu ætlað að ógilda ákvæði frjálsra samninga við skuldara — án tillits til þess hvort þeir teljist vera neytendur sem falla undir ákvæði laga um neytendalán eða lögaðilar — um heimild eigenda tækja til að endurheimta umráð/vörslur lausafjár.

Samtökin álíta líka að vegna þess hafi frumvarpið afturvirk réttaráhrif og skerði þar af leiðandi rétt aðila samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglur um samningsfrelsi sem ég minntist aðeins á í andsvari mínu fyrr í dag.

Í ljósi þessara athugasemda — fyrst nefndin er svona samstiga og sammála um að þetta sé rétt, sem getur vel verið — sakna ég þess að ekki sé farið yfir þetta í nefndarálitinu. Af hverju er ekki talað um þessar athugasemdir varðandi samningsfrelsið? Það er meginregla, bæði í okkar rétti og í rétti almennt, að samningar skuli standa og það hefði verið ágætt að fara aðeins í það í nefndarálitinu.

Í umsögn samtakanna segir síðan að töluvert hafi reynt á þessi atriði, þ.e. að kröfuhafar séu að endurheimta eða taka til sín eignir eða lausafjármuni sem skuldarar hafi gert samning um leigu á. Farið er yfir það að ákveðin réttaróvissa sé í gangi varðandi ýmsar tegundir af gengistryggðum eignaleigusamningum. Allt þetta kallar að mati samtakanna á að farið verði vandlega yfir þær réttarreglur sem gilda á sviði eignaleigu. Tekið er fram að sérstök lög séu í gildi í ýmsum löndum varðandi eignaleigu en svo sé ekki hér á landi. Mig langar að spyrja nefndina hvort hún hafi eitthvað farið yfir það hvort rétt væri að setja sérstaka löggjöf um eignaleigu hér á landi að erlendri fyrirmynd. Þetta var í raun ekki til hjá okkur lengi framan af en varð síðan mjög algengt á þeim miklu uppgangstímum sem hér voru. Ef þetta er eitthvað sem vantar einfaldlega í okkar rétt þá tel ég að nefndin hefði átt að taka það til sérstaklega í áliti sínu, eða alla vega vísa til þess hvort hún teldi þetta algerlega óþarft eða ekki. Það væri ágætt ef einhverjir nefndarmenn, hafi þeir nennu til þess, gætu komið hingað og svarað því hvort eitthvað hefði verið hugsað út í þetta og hvort menn hafi myndað sér einhverja skoðun á því hvort rétt sé að innleiða sérstaka löggjöf um eignaleigu.

Það er alveg ljóst að atvinnulífið hefur notað þetta mjög mikið og neytendur eru í sífellt auknum mæli að fara yfir í þessa leið. Kostirnir við hana eru að hún er ódýrari og gefur kost á hærra fjármögnunarhlutfalli. Við getum svo sem deilt um það hvort það sé gott eða slæmt en alla vega er þetta eitthvað sem hefur fengið stærri sess á markaðnum og þá er mikilvægt að við reynum að fylgja tímanum. Við viljum ekki að reglurnar hér séu það stífar að þessi leið leggist af. Eða er það skoðun nefndarinnar?

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram tillaga um að sett verði af stað vinna sérfræðinga sem feli í sér heildarskoðun á lagaumgjörð eignaleigu með það að markmiði að þessum málum verði skipað með sem bestum hætti. Það hefði verið ágætt hefði nefndin tekið einhverja afstöðu til þeirrar ágætu tillögu. Ég tel að hún sé allrar athygli verð ef þennan kafla vantar einfaldlega í löggjöf okkar. Kannski hefur nefndin talið þetta algerlega óþarft og þá væri ágætt að það kæmi fram. Ef nefndin hefur hins vegar lagst í einhverja vinnu við að skoða löggjöf annarra ríkja varðandi þetta þá væri líka gott að það kæmi fram í umræðunni.

Frú forseti. Verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa í för með sér aukið álag á embætti sýslumanna sem og dómstóla. Menn gera ráð fyrir að þetta taki allt sinn tíma. Það er eðlilegt að það taki tíma að ná fram rétti sínum í kerfinu en menn þurfa að átta sig á því þegar þeir leggja fram breytingar sem þessar. Ef menn ætla að gera þetta er spurning hvort ástæða sé til að endurskoða hvernig aðfarargerðir sem þessar fara fram. Er hægt að einfalda þá málsmeðferð alla á einhvern hátt til að stytta þann tíma sem tekur hlutina að komast í gegnum kerfið núna? Eða er eina lausnin sem til er sú að auka fjármagn til þeirra embætta sem þurfa að sinna þessari lagaskyldu? Það væri ágætt ef fram kæmi af hálfu nefndarinnar hvort hún hefði skoðun á þessu, hvort hún telji að bæta þurfi í fjárheimildir þessara embætta eða hvort þau eigi einfaldlega að ráða við þessa viðbót í núverandi fjárheimildum.

Mig langar aðeins aftur að víkja að umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja en þau benda á sex atriði sem skoða þurfi varðandi frumvarpið. Ég hef farið yfir nokkur þeirra. Í 3. lið kemur þessi athugasemd fram, með leyfi forseta:

„Ákvæðið heimilar ekki vörslusviptingu í aðstæðum þar sem nauðsynlegt er fyrir fjármálafyrirtæki að fá vörslurnar til að forða skemmdum á lausafénu og öðru afleiddu tjóni. Hér má nefna ýmis dæmi, t.d. þegar bifreið hefur verið skilin eftir á víðavangi án umhirðu.“

Var eitthvað fjallað um þetta í nefndinni?

Í 4. lið segir:

„Orðin „afborganir eða lánskostnað“ í 2. gr. benda til þess að kostnaður fjármálafyrirtækis vegna trygginga og bifreiðagjalda falli utan ákvæðisins. Nauðsynlegt er að geta framkvæmt vörslusviptingu vegna innheimtu slíks kostnaðar og því eðlilegt að hann falli fyrir utan ákvæðið.“

Var fjallað um þetta af hálfu nefndarinnar?

Í 5. lið er því haldið fram að ákvæðið mundi leiða til aukinna vanskila þar sem hægt væri að halda umráðum lauss fjár í lengri tíma, þ.e. að vanefndir á samningnum mundu bara staflast upp. Því er líka haldið fram að þetta mundi jafnframt leiða til stóraukins innheimtukostnaðar og afskriftarkostnaðar hjá viðkomandi fjármálafyrirtækjum og bitna á verðlagningu á þeirrar þjónustu sem fjármálafyrirtæki veita.

Var fjallað um þennan lið í umfjöllun nefndarinnar?

Í 6. lið segir:

„Með því að nota orðið „lausafé“ í 2. gr. frumvarpsins er líklega verið að gera ákvæðið of víðtækt. Þá er hætta á að það taki til allt of margra hluta. Almennt er lausafé allt annað en fasteignir. Þar með gætu til dæmis talist vörubirgðir og annað samkvæmt lögum um samningsveð. Einnig er hætta á að sumir fjármálagerningar sem bankar eiga veð í gætu einhvern vegin talist lausafé, t.d. eignaskilríki fyrir lausafé eða hrávörum.“

Var fjallað um þetta atriði af hálfu nefndarinnar?

Það er mikilvægt að við vitum hvort hér sé átt við safn muna eins og bent er á í 6. lið athugasemda Samtaka fjármálafyrirtækja. Ef svo er horfum við fram á mikla breytingu í þeim viðskiptum öllum. Hér er tekið fram að mikilvægt sé að lögin séu skýr en miðað við athugasemdir frá Samtökum fjármálafyrirtækja — ég er ekki að lýsa mig sammála þeim öllum en þetta eru atriði sem nefndin þarf að svara í umfjöllun sinni. Til að ljóst sé hvað átt er við tel ég mikilvægt að það komi að minnsta kosti fram í þingtíðindum, fyrst þess er ekki getið í nefndarálitinu, hvernig nefndin hefur brugðist við þessum athugasemdum, hvort hún hefur skoðað þessi atriði eða hvort þetta hefur dottið upp fyrir í umfjöllun nefndarinnar. Upplýsingar um það koma ekki fram í nefndarálitinu.

Frú forseti. Þar sem málið stafar frá nefnd fylgir því engin greining á því hvaða kostnað þetta mun hafa í för með sér. Það liggur ekki fyrir. Það getur vel verið að nefndin hefði litið svo á að þetta hafi ekki kostnað í för með sér en það er spurning, af því að málum mun væntanlega fjölga hjá sýslumannsembættunum, hvort nefndin hafi eitthvað velt því fyrir sér hver kostnaður af þessu yrði.

Umsögn barst líka frá Lýsingu. Lýsing er fyrirtæki sem hefur mikið verið í því að lána til bifreiðakaupa og til kaupa á ýmsum atvinnutækjum. Umsögn Lýsingar er á þrem síðum þar sem meðal annars er fjallað um stjórnarskrárvarin réttindi lánveitanda og bent á þetta sama atriði, þ.e. að þessi lagabreyting gæti takmarkað möguleika fjármálafyrirtækja til að vernda verðgildi eigna sinna og þannig valdið fjármálafyrirtækjunum tjóni. Þeir segja að við verðlagningu þeirra samninga sem innibáru þetta ákvæði, um að heimilt væri að taka eignina ef ekki væri staðið við samninginn án þess að fara með það í gegnum aðfararkerfið, hafi verið tillit til þess þegar kveðið var á um vaxtakjör og hlutfall fjármögnunar af kaupverði. Þess vegna telja þeir að með frumvarpinu sé gengið inn á eignarréttarákvæði lánveitenda. Mig langar að vita hvort nefndin fjallaði um þetta atriði sérstaklega. Ég reyndi að spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að því áðan en þá kom í ljós að hún er ekki nefndarmaður. Ég þarf því að beina þessari spurningu áfram út í loftið og athuga hvort einhverjir nefndarmenn geta svarað þessu.

Þá velta þeir hjá Lýsingu málshraðanum líka fyrir sér og setja fram harða gagnrýni á ríkisvaldið þess efnis að reynslan hafi sýnt að tilraunir til að ná fram skjótum rétti með atbeina handhafa ríkisvaldsins séu andvana fæddar. Málum sé einfaldlega þannig háttað að við séum ekki að standa okkur í þessu og ég tel vert að skoða þá gagnrýni. Það er ekki gott fyrir neinn að þessi mál taki marga mánuði í kerfinu.

Í umsögn Lýsingar segir síðan að þau ummæli fulltrúa réttarfarsnefndar, að nánast aldrei sé mætt í þessum málum, séu sérkennileg réttlæting fyrir því að fella niður samningsbundna heimild til vörslusviptinga. Það er punktur sem þarfnast nánari skýringar og ég spyr hvort nefndin hafi eitthvað skoðað það.

Þá gerir Lýsing að umræðuefni samkeppni milli stærri og minni fjármálafyrirtækja, að hér sé verið að hafa áhrif á hana. Þeir álíta að þetta muni leiða til takmörkunar á samkeppni og verða til þess að minni fyrirtæki bíði skaða af.

Frú forseti. Ég óska eftir svörum við einhverjum þeirra spurninga sem ég hef varpað fram.