140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að svara einhverjum af spurningunum mínum. Það er virðingarvert að hv. þingmaður gefi sér tíma í það.

Ég veit að tíminn er knappur í þessum andsvörum en mig langar svo að fá svar við því hvort nefndin hafi eitthvað fjallað um tillögu Samtaka fjármálafyrirtækja um að fara yfir það hvort ástæða sé til að setja sérstaka löggjöf um eignaleigur. Er það eitthvað sem nefndin fór yfir? Miðað við umsögn samtakanna er sérstök löggjöf um þetta hjá sumum þjóðum og ég tel að á Íslandi hafi þetta tekið það stóra hlutdeild af markaðnum og sé orðið það mikið notað á Íslandi að við ættum að skoða það að setja slíka vinnu af stað.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það sé hugsaður einhver greinarmunur á lögaðilum og einstaklingum um þetta ákvæði og hvort nefndin telji að þetta hafi áhrif á viðskipti, t.d. vörubirgðir sem hafa skipt um hendur, slíkt lausafé, vegna þess að miðað við orðanna hljóðan er ekki bara verið að tala um bifreiðar og slíkt lausafé. Í umræðunni hér hefur nánast komið fram að menn séu að hugsa þetta svolítið mikið eingöngu út frá þeirri hlið.