140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem er ekki stórt í sniðum. Í rauninni er þetta mjög lítið mál en kannski það mál sem ríkisstjórnin getur notað til að benda á að hún hafi gert eitthvað sem snýr að skuldamálum heimilanna. Það er kannski dæmigert að í þessu tilfelli, sem er eitt af þeim málum sem að vísu kemur ekki frá ríkisstjórninni heldur hv. efnahags- og viðskiptanefnd, er um það að ræða að skýra betur ákvæði laga. Eins og komið hefur fram í umræðunni er ekki heimilt að fara í vörslusviptingar án aðkomu þar til bærra yfirvalda, þ.e. menn þurfa að fá atbeina handhafa ríkisvalds til þess að fá heimild til að staðfesta og taka lausafé eða annað úr umráðum vörslumanns.

Síðan hefur komið í ljós að það eru einhver dæmi þess að ekki sé farið fram með þeim hætti. Þetta mál er þess vegna hingað komið til að ítreka að menn eigi að fara eftir lögum og þess vegna fara menn fram með það. Um það er samstaða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en hún ætti ekki að vera þar heldur allsherjar- og menntamálanefnd. Þegar talað var fyrir málinu lagði ég til að við hefðum þann háttinn á. Á það var ekki fallist en hins vegar kom umsögn frá allsherjar- og menntamálanefnd. Það er umhugsunarefni, virðulegi forseti, af því að hugmyndin á bak við nefndirnar er sú að þeir hv. þingmenn sem sitja í hverri nefnd fyrir sig verði í það minnsta búnir að koma sér upp ákveðinni sérþekkingu þegar þeir eru búnir að vinna þar í einhvern tíma. Helst ættu þeir að koma með sérþekkinguna þar inn, í það minnsta undirbúa sig fyrir þingstörfin með þeim hætti. Það er ekki gott ef við brjótum þessa reglu sem hefur verið, þ.e. að viðkomandi fagnefnd fjalli um mál sem heyra undir málasvið hennar. Það geta verið grá svæði og kannski er þetta eitt af þeim en ég held hins vegar að þegar við erum að koma í tæknileg atriði eins og þessi væri best að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefði fjallað um málið.

Það er hins vegar afskaplega sorglegt og mjög slæmt að við skyldum ekki bera gæfu til að samþykkja frumvarp sem Sigurður Kári Kristjánsson var 1. flutningsmaður að um flýtimeðferð fyrir dómstólum varðandi gengislánamál. Þegar hann fór af þingi tók ég það upp. Langstærstu leiðréttingarnar á lánum hafa orðið út af gengislánum og það þarf ekkert að rifja þá sögu upp. Niðurstaða dómstóla varð að ekki hefði verið farið rétt að með þau lán, þvert á móti að þar hefðu lög verið brotin. Þar af leiðandi voru þau ólögleg og vegna gengisfalls krónunnar kom það sér afskaplega vel fyrir lántakendur sem voru svo lánsamir, getum við sagt, að taka ólögleg lán. Þar með er hins vegar ekki öll sagan sögð vegna þess að það næst ekki niðurstaða í málin fyrr en endanlega er búið að útkljá þau fyrir dómstólum og eins og staðan er núna og búin að vera lengi hafa mörg mál verið hjá dómstólum og á eftir að ná niðurstöðu í. Þrátt fyrir að þeir dómar hafi fallið fyrir tveimur eða þremur árum sem settu þessi mál af stað er enn þá óvissa hvað þetta varðar. Óvissan getur haft allrahanda afleiðingar í för með sér en sumt snýr ekki beint að þeim sem eiga í hlut, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki. Það getur svo sannarlega líka komið að þriðja aðila og þess vegna er fullkomlega óskiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn hafi ekki tekið þessari vel unnu tillögu fegins hendi. Ef það hefði verið gert værum við komin miklu lengra í skuldamálum bæði fyrirtækja og heimila og værum þar af leiðandi búin að koma hlutum sem eru enn þá í ólagi í miklu betra horf. Því miður náðist ekki samstaða um þetta og við fáum vonandi ef allt gengur upp endanlega niðurstöðu í haust í gengislánunum. Ég vona það en hins vegar veit ég af fenginni reynslu að slíkar tímasetningar virka ekki alltaf, í rauninni sjaldnast, þannig að við getum jafnvel horft fram á lengri fresti. Kveikjan að þessu máli er að mati sumra, það er kannski ekki stór hópur, að þeir hafi verið órétti beittir, þ.e. að fyrirtæki sem þeir keyptu aðallega bíla af hafi tekið bíl viðkomandi, jafnvel í skjóli nætur og jafnvel með persónulegum eigum viðkomandi skuldara. Þeir telja réttaróvissu í málinu, þ.e. skuldararnir, og að ekki hafi verið réttmætt að fara í þessa vörslusviptingu. Svo mikið er víst að ekki var fengin heimild fyrir því hjá handhafa ríkisvalds eins og á að gera og hefur verið áréttað hér, en við erum enn þá með alveg gríðarlega mörg svona mál í ferli. Það er mjög misjafnt hversu mikið þessi mál eru í umræðunni. Þau eru búin að vera í umræðunni meira og minna frá bankahruni og þó að þau séu ekki mikið í fjölmiðlum þýðir það ekki að málunum sé lokið. Það er mín reynsla, virðulegi forseti. Það þýðir einfaldlega að svo mikið hefur verið fjallað um málið að fjölmiðlamenn eru orðnir, og kannski almenningur líka, örlítið leiðir á því þannig að annað er meira áberandi í umræðunni núna.

Ég held að sá kostnaður sé algerlega vanmetinn sem og sú fyrirhöfn sem hlýst af óvissunni og því að viðkomandi fyrirtæki og einstaklingar geti ekki séð stöðu sína og þar af leiðandi ekki unnið úr sínum málum. Sjálfur hef ég mikið pressað á það á þessu kjörtímabili að það komi úrlausn í mál, að fólk fái svör. Gríðarlega mikið hefur verið unnið í þessu í bönkum og lánastofnunum. Það má að vísu segja að stjórnvöld hafi ekki farið þær leiðir sem hefði verið skynsamlegast að gera. Í sinni einföldustu mynd má segja að þær leiðir sem stjórnvöld hafa farið í skuldamálum séu almennt flóknar og erfiðar viðfangs. Þær kosta gríðarlega mikinn tíma og fjármuni. Bara það að rekstrarkostnaður við stofnun umboðsmanns skuldara sé milljarður á ári segir okkur að við erum búin að búa til mjög flókið og erfitt kerfi. Kannski er eitt skýrasta dæmið um léleg og fljótfærnisleg vinnubrögð sem kosta fjármuni þau lög sem voru keyrð í gegnum þingið í skjóli nætur án mikils undirbúnings eftir að gengislánadómarnir féllu. Ef ég man rétt eru þau lög nr. 141/2010.

Það er svolítið kómískt að sjá að rökin fyrir því að þau voru keyrð fram með þessum hætti voru að það lægi svo mikið á að koma í veg fyrir réttaróvissu. Það er skemmst frá því að segja að eftir að við í þessum sal samþykktum þau lög er búin að vera fullkomin réttaróvissa í þessum málum. Við höfum ekki borið gæfu til þess, því miður, að samþykkja frumvarp um flýtimeðferð fyrir dómstólum hvað þetta varðar og þess vegna búum við núna um mitt sumar 2012 enn við gríðarlega óvissu. Óvissa á þessu sviði kostar tíma og fjármuni. Þeir sem verða fyrir því eru bæði þeir sem tóku lánin og lánveitendur því að við skulum ekki gleyma því að það skiptir líka miklu máli að við vitum stöðuna á bönkum og fjármálastofnunum. Sú staða sem er uppi sem við erum kannski svolítið vön, þ.e. að hafa þessa stóru banka — þá er ég að vísa til Arion banka og Íslandsbanka þar sem eignarhaldið er ekki skýrt og þeir í ákveðnu millibilsástandi því að þeir eru í eigu kröfuhafa sem er bannað núna samkvæmt íslenskum lögum. Sá sem vill kaupa ráðandi eða stóran hlut í einhverjum banka þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og það er bannað samkvæmt íslenskum lögum að það séu kröfuhafar eða gjaldþrota bú.

Þess vegna er mjög mikilvægt að fá niðurstöðu í öll þessi mál. Þetta mál er lítið, það mun koma sumum vel og ég held að það verði eðlilegra umhverfi fyrir neytendur á fjármálamarkaði. Það er mín skoðun að við séum eftir á hvað það varðar. Við hefðum þurft að standa okkur betur í neytendavernd á fjármálamarkaði (Gripið fram í.) og má örugglega taka góða umræðu um það hverjum þar er um að kenna. Ég býst við að þeir sem gala hæst í umræðunni, álitsgjafar og aðrir slíkir, muni komast að þeirri niðurstöðu að það hljóti að vera Sjálfstæðisflokknum að kenna vegna þess að við vorum í ríkisstjórn í 18 ár — en við fórum að vísu aldrei með þennan málaflokk. Það er auðvitað fullkomið aukaatriði í umræðunni, spunameisturum vinstri manna er nákvæmlega sama um staðreyndir, aðalatriðið er að vinna umræðuna. Þar er bara gamla sósíalistahugmyndin að segja ósatt nógu oft og þá hlýtur það að verða einhvers konar sannleikur. Ég held að við sjáum þetta mjög skýrt núna í umræðunni um SpKef. Spunameistarar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fara mikinn og aðalatriðið er að reyna að halda staðreyndum málsins frá umræðunni en við erum í þeirri stöðu að núverandi ríkisstjórn hefur haldið þannig á málum að kostnaður skattgreiðenda verður 26 milljarðar af því. Hér hafa menn jafnvel fullyrt þvert gegn betri vitund, eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, að þetta sé í samræmi við neyðarlögin og í anda þeirra en það eru fullkomin ósannindi.

Ég þekki það ágætlega þar sem ég var settur hæstv. fjármálaráðherra þegar við unnum reglurnar um sparisjóðina og menn geta svo sem lesið nýjustu skýrslu hæstv. fjármálaráðherra sem við ræddum hér í þinginu, skýrsluna um fjármálamarkaðinn. Þar segir að í neyðarlögunum hafi verið heimild til að setja að hámarki, ef ég man rétt, 25% af eigin fé inn í viðkomandi sparisjóði en það voru farnar allt aðrar leiðir í þessu SpKef-máli. Það var ekki farið eftir lögum um Bankasýsluna sem átti að halda utan um þetta. Það var stofnaður nýr banki sem fór á hausinn og hið sama má segja um Byr nokkrum mánuðum eftir að hann var stofnaður. Viðkomandi banki uppfyllti aldrei eiginfjárhlutfall en var á fullu í samkeppni við aðrar stofnanir, m.a. um innlán. Hann jók þau og þar af leiðandi ábyrgð skattgreiðenda.

Ef menn hafa áhuga á að skoða íslenska umræðu er gott að skoða sérstaklega málatilbúnað spunameistara ríkisstjórnarinnar í þessu máli og spegla hann við staðreyndir málsins. Mér finnst þetta afskaplega gott dæmi um vinnubrögð íslenskra vinstri manna, þá sérstaklega Samfylkingarinnar og þess sem eftir er af Vinstri grænum. Það væri mjög fróðleg stúdía að fara yfir efnisatriði málsins og skoða svo málflutning spunameistaranna og sjá hvað þeir eru að reyna að teikna upp. Ég er búinn að starfa nokkuð með Samfylkingunni beggja vegna borðs þannig að ég er farinn að þekkja þessi vinnubrögð og það er mjög áhugavert, þótt það sé ekki sé alltaf geðslegt, að fylgjast með því hvernig þetta fólk vinnur. Það er áhugavert að skoða hvað það er hátt hlutfall af fjölmiðlamönnum í þingflokki Samfylkingarinnar vegna þess að þegar þessir hv. þingmenn voru fréttamenn fannst þeim ekkert fáránlegra en að einhver skyldi væna viðkomandi einstaklinga um að vera eitthvað annað en einstaklega faglegir og hlutlægir í störfum. Það er oft og tíðum lítill munur á fréttaflutningi þessa fólks og málflutningi í þingsölum. Síðan erum við auðvitað með tengingar inn í talandi hluta akademíunnar sem sömuleiðis er mjög áhugaverður. Það er allt eins líklegt að við verðum hér á sumarþingi og þá getum við rætt þessi mál. Ef við ræðum þau ekki hér í sumar munum við gera það í haust og sömuleiðis í fjölmiðlum. Það er svo kristaltært að sjá hvernig spunameistarar Samfylkingarinnar vinna og hvernig reynt er að ýta hlutum frá aðalatriðum málsins. Þetta mál er ágætt og ég styð það en það er líka gott dæmi um skjaldborgarstefnu ríkisstjórnarinnar því að er hæstv. ríkisstjórn er eðli máls samkvæmt með meiri hluta í nefndinni.

Menn hafa ekki nýtt tímann til að ganga í að koma í veg fyrir hið óumflýjanlega sem var óvissan í tengslum við gengislánin. Þeim hefði verið það svo í lófa lagið, svo eðlilegt og skynsamlegt og í rauninni engin rök gegn því að fara leið okkar sjálfstæðismanna og setja á flýtimeðferð varðandi gengislánadómana. En hæstv. ríkisstjórn gat ekki gert það. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það, við erum búin að missa dýrmætan tíma sem hefur valdið þjóðfélaginu gríðarlegum skaða. Við sitjum hins vegar uppi með það að við erum að reyna að lagfæra hluti og ég geri ekki lítið úr því. Hins vegar hlýtur maður að gagnrýna forgangsröðina. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þessi vinnubrögð. Mörg mál, svo það sé alveg sagt, ég er ekki að taka þessa nefnd sérstaklega fyrir, hafa samt verið með ágætum. Málið er ágætt en forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er fyrir neðan allar hellur. Alverst er þó að ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við staðreyndir eins og þau mál sem eru í umræðunni núna og spinnur eitthvað sem tengist málunum ekki neitt. Það er hins vegar afhjúpandi fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og aðra þá áhangendur sem eru mjög áberandi í íslensku þjóðlífi og fara mikinn. Menn hafa svo sem allan rétt til þess og ég er tilbúinn að leggja mikið á mig til að verja þau réttindi en ég hvet fólk til að skoða staðreyndir máls og síðan málflutning spunameistara Samfylkingar og Vinstri grænna. Það væri mjög gott. Sá sem skoðar það, alveg sama hver það er, sér þá kannski hvert stóra vandamálið er við þessa ríkisstjórn. Það er ekki lítið vandamál, virðulegi forseti.