140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mál í 3. umr. að tæpa á þeim aðalatriðum sem ég tel mikilvægt að við höldum til haga. Þrátt fyrir að hér sé verið að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, tel ég að við séum ekki að vinna þetta mál á fullnægjandi hátt. Ég tel að við hefðum átt að nýta tímann betur og fara í grundvallarskoðun á því hvernig við viljum að málefni sjóðsins séu til framtíðar í stað þess að gera hér málamyndabreytingar, litlar breytingar til að koma að einhverju leyti til móts við sjónarmið Eftirlitsstofnunarinnar, vitandi það að væntanlega þurfa frekari lagabreytingar að koma til innan frekar skamms tíma. Ég tel að við ættum að fara í þessa vinnu, enda hefur legið fyrir í áraraðir að það þurfi að fara í slíka endurskoðun.

Það hefur kristallast í umræðunni að menn eru ekki sammála um það hvernig sjóðurinn á að vera. Á hann að vera lítill sjóður sem einbeitir sér að sinna hinu félagslega hlutverki, þ.e. að styðja við þá sem hafa lágar tekjur eða þurfa af öðrum félagslegum ástæðum aðstoð frá hinu opinbera til að leysa sín húsnæðismál? Þá mundi sá sjóður heyra undir velferðarráðherra. Eða á hann að vera ríkisstyrkt stofnun sem er í samkeppni við fjármálastofnanir á einkamarkaði um að fjármagna húsnæðiskaup allra Íslendinga? Hann mundi þá að öllum líkindum heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra. Þessum spurningum hefur ekki verið svarað og það er kannski erfitt að gera það vegna þess að við erum ekki öll alveg sammála en slík umræða um þetta mikilvæga atriði þarf að fara fram fyrr en síðar.

Ég vil benda á það enn og aftur að flestar þær erlendu eftirlitsstofnanir sem fylgjast með efnahagsmálum á Íslandi hafa á undanförnum árum ítrekað varað við þátttöku ríkisins í veitingu almennra íbúðalána og hvatt til þess að starfsemi sjóðsins verði takmörkuð við þann félagslega þátt sem ég ræddi um.

Ef við ætlum að hafa sjóðinn í þeirri mynd sem hann er í dag ætti hann að heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra. Jafnframt verðum við að taka til umræðu þá gagnrýni og þær ábendingar sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um það hvort og að hve miklu leyti sé heppilegt að fasteignalánastarfsemi sé á vegum hins opinbera. Það er farið yfir það í 1. bindi rannsóknarskýrslunnar í 4. kafla og bent á þær ábendingar sem okkur bárust frá Efnahags- og framfarastofnuninni í byrjun árs 2005 um að hækkun hámarkslána veðhlutfalls hjá Íbúðalánasjóði yki eftirspurn á húsnæðismarkaði. Talið var að Íbúðalánasjóður ætti að greiða gjald fyrir þá ríkisábyrgð sem hann nyti og það mundi endurspegla raunverulegan kostnað, þannig að sjóðurinn hefði ekki óeðlilegt forskot á aðrar fjármálastofnanir sem veita lán til fasteignakaupa.

Efnahags- og framfarastofnunin benti á að ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði kæmi í veg fyrir eðlilega samkeppni og hagkvæma dreifingu gæða og hamlaði framþróun á markaðnum. Það væri réttast að sjóðurinn sinnti félagslegu hlutverki með styrkjum vegna fyrstu kaupa í þeim tilfellum sem þörf væri á slíku og ríkið hætti samkeppni á almennum íbúðalánamarkaði og hætti einnig niðurgreiðslu vaxta til fasteignakaupa.

Efnahags- og framfarastofnunin ályktaði árið 2008 að stefna ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum hefði stuðlað að ójafnvægi efnahagslífsins. Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að ræða. Jafnframt var bent á það að ríkið þyrfti að fella ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði úr gildi eða krefja hann um endurgjald sem endurspeglaði verðmæti ábyrgðarinnar.

Ég veit að nú stendur yfir skoðun á sjóðnum en ég hefði einfaldlega talið heppilegt að gera þetta allt saman í einu skrefi. Auðvitað hefði verið gott ef okkur hefði unnist meiri tími til þess innan nefndarinnar til að fara yfir þessar grundvallarspurningar og ræða málin. Auðvitað hefur Íbúðalánasjóður verið mikilvægur, sérstaklega fyrir landsbyggðina. Við þurfum að fara í greiningu á því hvort það sé þannig alls staðar á landsbyggðinni eða hvort um sé að ræða ákveðin svæði. Við þurfum að skoða hvað ESA á við þegar stofnunin talar um markaðsbrest. Á hún við landið allt eða hugsanlega afmörkuð svæði? Hversu lengi mun ESA vera á þeirri skoðun að hér sé um markaðsbrest að ræða? Þetta á allt saman eftir að koma í ljós. (Forseti hringir.) Ég tel einfaldlega rétt að halda þessum sjónarmiðum til haga.