140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:39]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir hvert einasta orð sem hv. þm. Lúðvík Geirsson sagði í lokin.

Ég velti því aðeins upp af því að hann kom inn á þetta hámark, hámarkslán, þá hefur komið fram í umræðunum — ef við tökum þau svæði sem við höfum verið að tala um að séu markaðslega köld og menn virðast vera nokkuð sammála um, hvort við séum út af þessu hámarki að fara inn í einhvers konar fyrirmyndir eins og var nú nefnt hér, þar sem húsameistari ríkisins teiknaði allar teikningar því að þá gæti byggingarkostnaður verið jafnhár hvar sem er á landinu. Þá er í raun og veru verið að takmarka hvað fólk getur byggt sér stórt húsnæði á ákveðnum svæðum ef það hefur bara til Íbúðalánasjóðs að leita. Þetta er áhugaverð pæling finnst mér en ég held að fæst okkar mundu vilja hverfa til þess tíma að ef farið yrði um landið væru húsin á sumum stöðum byggð í sama stíl.

Ég vil ítreka það í lokin að ég tel að Íbúðalánasjóður hafi gegnt lykilhlutverki á þessum svæðum. En ég vil jafnframt mótmæla því að við séum einhvern veginn komin í þá stöðu að það sé bara um félagslega aðstoð að ræða. Það líkar mér mjög illa komandi úr byggðum sem skila svo sannarlega sínu til samfélagsins. Hvernig hægt væri að koma því fyrir að markaðskerfin mundu virka og viðskiptabankarnir kæmu þar inn, því get ég ekki svarað hér og nú þótt ég gjarnan vildi.

Ég þakka fyrir umræðuna. Þetta hefur verið fróðlegt fyrir mig og tek að lokum undir hvert orð um það að gera á öllum landsmönnum kleift að koma sér þaki yfir höfuðið.