140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ánægjulegt að sú umræða sem hér hefur átt sér stað um það frumvarp sem hv. þm. Lúðvík Geirsson hefur mælt fyrir og varið alveg í drep eins og sagt er hafi í raun opnað honum nýja sýn á ýmsa þætti sem lúta að íbúðarhúsnæði og lánveitingum til þess hér í landinu, ég efa ekki að þetta hefur verið honum mjög lærdómsrík umræða eins og raunar fleirum sem hafa tekið þátt í henni.

Það sem ég hef staldrað við í hugsun minni varðandi þetta mál er ekki endilega það sem hefur rekið til smíði þessa frumvarps, þ.e. athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA, heldur miklu fremur það sem mér finnst standa upp úr, þ.e. umræðan um Íbúðalánasjóð og hlutverk hans á íbúðamarkaði. Samandregið mætti segja að vilji þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls stendur mjög ríkur til þess að Íbúðalánasjóður hafi með höndum það hlutverk að greiða fyrir lánveitingum eða íbúðarbyggingum, sérstaklega á landsbyggðinni. Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið og ég leyfi mér, forseti, að vitna í nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði einnig um mikilvægi þess að Íbúðalánasjóður héldi almennum lánveitingum til einstaklinga áfram með tilliti til íbúa landsbyggðarinnar. Íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni er almennt ekki jafnverðmætt og íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og velta og hreyfing á fasteignamarkaði almennt minni á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.“

Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Til að tryggt sé að íbúar í dreifbýli og íbúar á landsbyggðinni geti keypt íbúðarhúsnæði er nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður starfi enn á almennum lánamarkaði vegna fasteignakaupa.“

Ég hef þá afstöðu gagnvart þessari málsgrein í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar að það sé í rauninni ekki boðlegt að ræða um íbúðarbyggingar og íbúðakaup eða sölu á landsbyggðinni undir þeim formerkjum einum að það eigi að vera hlutverk Íbúðalánasjóðs fyrst og síðast að tryggja að þannig hátti til. Ef meiri hluti velferðarnefndar er þeirrar skoðunar að þetta hlutverk eigi alfarið að vera í umsjá ríkissjóðs með þá stofnun sem Íbúðalánasjóðurinn er, er mjög áríðandi að það sé skýrt með fyllri hætti það álit sem hér kemur fram í nefndarálitinu og menn setji miklu skilmerkilegra fram hugmyndir sínar um það með hvaða hætti þeir sjá íbúðalánin starfrækja þetta hlutverk. Ef við ætlum að breyta honum í þá veru að hann láni einungis út til íbúðakaupa, sölu og bygginga íbúðarhúsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins, finnst mér við vera komin töluvert langt frá þeim markmiðum sem sett voru um Íbúðalánasjóð ef hann á fyrst og fremst að sinna þessu hlutverki. Jafnframt verður þá að skoða og leggjast yfir með hvaða hætti menn sjá fasteignamarkaðinn ganga fyrir sig á því svæði sem er umhverfis höfuðborgina.

Þetta eru mjög áhugaverðar hugmyndir sem settar eru fram. Ég ætla það að þær séu settar fram með tilliti til þess að umræðan um Íbúðalánasjóð síðustu ár hefur verið með þeim hætti að lánveitingar hans hafi fyrst og fremst beinst að landsbyggðinni, sem er í mínum huga ekki rétt. Ég hef ástæðu til að ætla að lánveitingar úr Íbúðalánasjóði í fjárhæðum hafi ekki verið minni og síst minni til höfuðborgarsvæðisins, á fasteignamarkaðnum þar heldur en úti á landi. Ef áhersla meiri hlutans er í þá veru að beina störfum og starfsemi Íbúðalánasjóðs fyrst og fremst að landsbyggðinni hlýtur það jafnframt að draga úr fjárþörf sjóðsins og þar með talið ábyrgð ríkisins á þeirri starfsemi sem þar er rekin.

Það kann vel að vera að þetta sé hugsunin en mjög fróðlegt væri að fá frekari greiningu á þessu. Ég hlakka raunar til að sjá framhald þeirrar vinnu sem hafin er með því frumvarpi sem hér liggur. Ég efast ekki um að í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um málið sé fullt af hugmyndum sem hægt er að nýta til áframhaldandi vinnu.