140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða mál sem tekur ekki á þeim stóru málum sem snúa að þeim sem eiga lán og eru í skuldavanda hjá Íbúðalánasjóði. Það er verið að fara í gegnum ákveðnar breytingar út af þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið af hálfu erlendra eftirlitsstofnana eins og hér hefur komið fram. Margt af þessu er alveg ágætt en stærsta einstaka málið er að hér er hugmyndin sú að eitt af verkefnum Íbúðalánasjóðs verði að eiga og reka leigufélag með íbúðarhúsnæði. Þetta eru tæplega 1.800 íbúðir miðað við nýjustu tölur frá því í febrúar og hefur kannski fjölgað eitthvað. Af þeim eru 700 eignir í útleigu, í langflestum tilfellum hjá fyrrverandi eigendum en um það bil þúsund íbúðir eru auðar og margar þeirra ófullgerðar.

Mér finnst dæmigert að þetta er mál sem lítið hefur verið verið rætt um og það sýnir kannski í hvaða ógöngur við erum komin með þingstörfin sem eru einhvern veginn að leysast upp. Ég hef ekki séð hvernig menn ætla að framkvæma þetta. Ég mundi ætla að það væri verkefni þingsins og hv. þingmanna að fara yfir það og sjá til þess að hér værum við ekki að búa til stórslys. Við sjáum hér allt í einu risa, við getum kallað hann það, mæta í postulínsbúð með því að koma inn á leigumarkaðinn. Leigumiðlarar hafa haft samband við mig og upplýst mig um að þetta frumvarp sé þegar farið að hafa áhrif á markaðinn bara af því að það er komið fram. Menn hafa heimildir fyrir því að leigan á þessu húsnæði verði lægri en það sem hefur tíðkast. Fyrstu viðbrögð manns eru að fagna því, maður vill sjá leigu lækka, en menn verða samt að ganga þannig fram að við búum ekki til enn þá stærri vanda hjá Íbúðalánasjóði. Þau leigufélög sem eru þegar starfandi eru með lán hjá Íbúðalánasjóði. Ef Íbúðalánasjóður kippir með framgöngu sinni rekstrargrundvellinum undan þessum leigufélögum mun vandi Íbúðalánasjóðs vaxa enn frekar og er hann nægur fyrir.

Menn tala hér oft eins og bankahrunið hafi ekki komið neitt við Íbúðalánasjóð en ríkisbankinn Íbúðalánasjóður fór mjög illa út úr því og við sjáum ekki fyrir endann á því. Ég held að við séum búin að setja 33 milljarða í Íbúðalánasjóð og ef við ætlum að ná eiginfjárhlutfallinu lögum samkvæmt, sem er samt mun lægra en gengur og gerist hjá almennum bönkum — ef ég man rétt er það 5% — eru það um 12 milljarðar í viðbót. (Gripið fram í.) Það eru 8% og í reynd 16% hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.

Ég hefði talið eðlilegt, virðulegi forseti, að við ræddum þetta í þessum sal. Við ættum að fara yfir það og fá að vita hvernig menn ætla að haga sér í þessu. Er þetta bara eitthvert mál sem menn ætla að renna í gegnum þingið án þess að vera neitt búin að huga að þessum málum? Eru menn eitthvað búnir að skoða hvernig þetta samrýmist samkeppnislögum? Eru menn eitthvað búnir að fara í útfærsluna á því hvernig þessi risi á leigumarkaðnum sem hann verður óhjákvæmilega muni haga sér þar? Ég hef ekki orðið var við það, virðulegi forseti, í þessari umræðu. Reyndar veit ég að menn hafa ekki hugsað fyrir þessu.

Við erum komin með mjög óeðlilega stöðu, ekki bara hvað varðar þessa hluti heldur líka meðal annars út af gjaldeyrishöftum og skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég næ ekki að klára ræðuna á þessum örstutta tíma en mun fara aftur á mælendaskrá til að fara betur yfir málið.