140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að grípa boltann frá síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, taka undir þær áhyggjur sem hann viðraði um áhrif á leigumarkaðinn og segja af því tilefni, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að það sjónarmið hlýtur að vera eðlilegast að grípa til úrræða sem gefa því ógæfusama fólki sem hefur lent í því að missa heimilin sín, missa íbúðirnar sínar, tækifæri til að eignast þær aftur. Það á sérstaklega við hjá hinu opinbera þar sem ríkið getur ráðið svolítið för í því hvernig skuldir eru meðhöndlaðar hjá fólki. Það þarf að fara í einhverjar eðlilegar leiðréttingar á þeim áhvílandi fasteignaskuldum og búa til greiðsluúrræði sem gera fólki kleift að eignast íbúðirnar aftur. Þar sem um er að ræða erfiða greiðslubyrði sem getur verið tímabundin hjá mörgum fjölskyldum, getur stafað af ýmsum ástæðum, svo sem því að fólk hefur misst heilsu eða misst atvinnu tímabundið, er auðvitað hægt að lengja í lánum og búa til þannig aðstæður að greiðslubyrðin geti verið minni og fólk ráðið frekar við þessa hluti.

Í þessu sambandi minni ég einnig á breytingartillögu frá hv. þm. Eygló Harðardóttur þar sem hún leggur til að þetta leigufélag fari að samkeppnisreglum og að skorið verði alveg á milli stjórnunar við það fyrirtæki þannig að ekki skarist hagsmunir heldur sé þessu stýrt algjörlega á markaðslegum forsendum til að kippa ekki grundvelli undan rekstri þeirra fyrirtækja sem starfa þegar á þessum markaði.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur lagt fram breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem kveðið er á um að Íbúðalánasjóður fari í raun svokallaða landsbankaleið í lækkun skulda. Það er í samræmi við frumvarp sem hv. þingmaður hefur áður lagt fram á þessu þingi. Ég held að það sé sjálfsagt að skoða það mál mjög vel. Ég mun greiða þeirri breytingartillögu atkvæði mitt ef til afgreiðslu málsins kemur.

Það er eiginlega ómögulegt að hafa tvær stórar lánastofnanir á þessum markaði, annars vegar Landsbanka Íslands sem er að langstærstum hluta í eigu ríkisins og hins vegar Íbúðalánasjóð sem er að sama skapi í eigu ríkisins. Það er ómögulegt að hér sé verið að bjóða upp á mismunandi kjör eftir því hvar fólk tók húsnæðislán hjá þessum opinberu aðilum. Ég bendi á að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið mjög afgerandi undir þessi sjónarmið, m.a. hv. þm. Helga Hjörvar sem tók undir þetta í þingræðu fyrir ekki svo löngu. Fyrr á þessu ári sagðist hann vilja árétta það sjónarmið að hvernig sem útfærslan yrði væri það bara hið eðlilega grundvallarsjónarmið að Íslendingar ættu að geta treyst því, hvort sem þeir skiptu við ríkisbankann Landsbankann eða ríkisbankann Íbúðalánasjóð, að geta notið sambærilegra kjara. Hann segir vissulega að þau þurfi ekki að vera nákvæmlega eins að öllu leyti en þau ættu að vera mjög sambærileg.

Hv. þm. Árni Páll Árnason hefur tekið í sama streng. Þegar hann var efnahags- og viðskiptaráðherra var haft eftir honum í Vísi um þetta sama mál:

„„Það eru lítil rök fyrir því að reka Íbúðalánasjóð ef hann getur ekki mætt fólki í vanda með sama hætti og fyrirtæki á markaði,“ segir efnahags- og viðskiptaráðherra. Engin áform eru samt uppi um að sjóðurinn veiti sömu úrræði vegna fasteignalána og Landsbankinn þótt báðir séu í eigu ríkisins.“ (Forseti hringir.)

Mér þykir því einsýnt af þessu að það ætti að vera nokkuð sterkur hljómgrunnur fyrir breytingartillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Ég vona að hún fái framgang hér ásamt þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur lagt fram.