140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt, eins og fram kemur í tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að skilið verði þarna á milli, við erum að tala um það mikinn fjölda eigna. Ljóst er að ef Íbúðalánasjóður fer af stað með eitthvert leigufyrirtæki á þeim markaði verður það langstærst þar og gæti orðið að hluta til markaðsráðandi. Það verður að reyna að spyrna þar við fótum og takmarka þær miklu heimildir sem þeir fá með því að fara þessa leið.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst að leiðin sem eigi að horfa á innan Íbúðalánasjóðs sé fyrst og fremst sú að reyna að skapa leiðir til þess að það ógæfusama fólk og þær fjölskyldur sem hafa lent í því að missa húsnæði sitt, að leitað verði allra leiða til að þær geti eignast það aftur.

Varðandi sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins um Íbúðalánasjóð þá held ég að ekki séu eins mismunandi skoðanir og hv. þingmaður ýjaði að. Það hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins að færa lánamál til íbúðarkaupa sem mest inn á hinn almenna markað.

Í samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2011 segir, með leyfi forseta, að hann vilji „að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, sem getur leitt til að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar.“

Í þessari sömu samþykkt, niðurstöðu landsfundar flokksins, segir líka, með leyfi forseta:

„Enn sem fyrr byggir Sjálfstæðisflokkurinn á þeirri meginstefnu að einstaklingar eigi þess kost að rísa frá fátækt til velmegunar á grundvelli eigin framtakssemi og dugnaðar. Framlag samfélagsins til þess á m.a. að vera með þeim hætti að sjá til þess að hagkvæm húsnæðislán séu jafnan í boði fyrir neytendur.“

Við þekkjum þá sögu, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að bankarnir voru ekki að bjóða á almennum markaði hagkvæm lán (Forseti hringir.) fyrir íbúa í ákveðnum póstnúmerum. Því tel ég að Íbúðalánasjóður þurfi að vera til og ríkið þurfi að tryggja þetta framboð meðan það er ekki (Forseti hringir.) gert á almennum markaði.