140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil enn og aftur fagna því að hv. þingmaður hyggst styðja breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og tek undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þingmanns um mikilvægi þess að sú breytingartillaga nái fram að ganga. Ég bind raunar töluverðar vonir við það, maður hefur heyrt að þingmenn úr öllum flokkum hafi lýst yfir stuðningi við hana, úr Sjálfstæðisflokknum og eins hv. þingmenn stjórnarliðsins og úr meiri hlutanum í velferðarnefnd, þannig að ég held að almennur skilningur ríki á mikilvægi þess að sú breytingartillaga nái fram að ganga.

Varðandi vangaveltur um skoðanir Sjálfstæðisflokksins á starfsemi Íbúðalánasjóðs og framtíðarsýn hans á starfsemi Íbúðalánasjóðs, þá eru okkur öllum í fersku minni þær raddir sem voru innan Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma um að selja Íbúðalánasjóð. Hv. þingmaður kom inn á að það væru ákveðnir aðilar, jafnvel á ákveðnum svæðum, sem gætu ekki fengið fjármögnun annars staðar. Jafnvel þrátt fyrir þau sjónarmið voru þær raddir hér uppi á árinu fyrir hrun að mikilvægt væri að selja eða einkavæða Íbúðalánasjóð. Um það voru skiptar skoðanir. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram í nefndaráliti og víðar og ávallt haldið þeim sjónarmiðum á lofti að Íbúðalánasjóður gegni algjöru lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og að allar breytingar á sjóðnum og allt sem við erum að horfa til framtíðar með eigi að miðast við það að Íbúðalánasjóður verði áfram þessi undirstaða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telur að innan Sjálfstæðisflokksins sé minnihlutahópur líkt og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir orðaði það; það væri minnihlutahópur innan Sjálfstæðisflokksins sem vildi selja og einkavæða Íbúðalánasjóð. Mig langar að (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann um það. Eða telur hann að þetta sé stór hópur?