140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið aftur út af þessum leigumarkaði að ítreka og árétta það sem ég sagði áðan varðandi þann þátt mála. Ég vil líka nota tækifærið og minna aftur á tillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að sambærileg kjör og lausnir verði í boði á vegum þeirra fjármálastofnana sem ríkið hefur með höndum eins og Landsbankans og Íbúðalánasjóðs. Ég vona að hv. þingmenn geti stutt þá tillögu einnig.

Um þá skoðun enn og aftur hvort selja eigi Íbúðalánasjóð vil ég árétta það sem kom fram í máli mínu og þær samþykktir sem voru gerðar á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar segir, sem ég kom ekki inn á áðan, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að fólki standi til boða hagkvæm lán til húsnæðiskaupa. Skattastefnu ríkisins og gjaldtöku sveitarfélaga vegna kaupa og byggingar eigin húsnæðis verður að stilla í hóf og fella á niður stimpilgjald vegna fasteignaviðskipta.“

Eins og ég vitnaði til áðan, virðulegi forseti, kemur fram í meginstefnu Sjálfstæðisflokkurinn að framlag samfélagsins til þess að efla þá stefnu og fylgja henni eftir, þ.e. að fólk geti átt eigið húsnæði, þurfi framlag samfélagsins til þess „m.a. að vera með þeim hætti að sjá til þess að hagkvæm húsnæðislán séu jafnan í boði fyrir neytendur.“ Þá á Sjálfstæðisflokkurinn við að það sé alveg sama hvar fólk býr á landinu. Á meðan við eru ekki með það tryggt í landinu að fjármálastofnanir mismuni ekki fólki eins og við horfðum á, það var ekki sama í hvaða póstnúmeri fólk bjó úti á landi hvaða lánafyrirgreiðslu það fékk, alveg burt séð frá greiðslugetu (Forseti hringir.) viðkomandi einstaklinga eða fjölskyldna — meðan slík (Forseti hringir.) staða er uppi held ég, til að (Forseti hringir.) stefna Sjálfstæðisflokksins gangi eftir, verði hið opinbera, Íbúðalánasjóður, að gegna því hlutverki sem hann gegnir.