140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst frumvarpið sem við erum að ræða eiginlega vera merki um uppgjöf núverandi ríkisstjórnar gagnvart nýju fyrirkomulagi eða bættu fyrirkomulag á fjármálamarkaði. Rætt var um það vorið 2010 þegar við samþykktum miklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, að skipuð yrði nefnd til þess að móta sparisjóðunum framtíðarhlutverk. Sú nefnd var aldrei skipuð að því ég best veit og fram kom þetta frumvarp sem gerir ráð fyrir litlu öðru en því að hægt sé að breyta sparisjóði sem er sjálfseignarstofnun í hlutafélag.

Ég fagna því auðvitað að það á að gefa þessari nefnd mjög skamman tíma til að leggja fram tillögur til úrbóta, en eins og ég sagði áðan óttast ég að heimild til hlutafélagavæðingar muni verða til þess að viðskiptabankarnir gleypi strax í sumar einhverja af þessum sparisjóðum. Ég vil taka fram að mér finnst afar brýnt að samhliða þessu frumvarpi verði samþykkt frumvarp Framsóknarflokksins um afnám stimpilgjalda til að tryggja að sparisjóðirnir hafi nógu stóran viðskiptamannahóp, til að tryggja að viðskiptavinirnir sem eru fastir hjá viðskiptabönkunum geti flutt sig yfir í sparisjóðina og þannig tryggt sig betur gegn áhættunni sem felst í fjárfestingarstarfsemi viðskiptabankanna. Það er annar kostur við sparisjóðina sem sjálfseignarstofnanir að þeir fá ekki leyfi til þess að stunda fjárfestingarstarfsemi, þannig að innstæðueigendur taka minni áhættu vegna taps á innstæðum (Forseti hringir.) sínum við gjaldþrot.