140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni til hamingju með samkomulag um afgreiðslu mála fyrir þinglok. Nú er það svo að það er enginn sérstakur leiðtogi stjórnarandstöðunnar, ég er því ekki mjög upplýst um innihald samkomulagsins sem gert var.

Það er tvennt sem ég hef áhyggjur af. Í fyrsta lagi hvort það eigi ekki örugglega að tryggja að hluti af veiðigjaldinu renni aftur til landsbyggðarinnar eða hvort þessir 12 eða 13 milljarðar eigi bara að fara inn í ríkissjóð og hverfa þar.

Hitt sem ég hef áhyggjur af er afkomutengda gjaldið. Er það enn þá inni eða var rætt eitthvað um að hækka það frekar? Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af þessu afkomutengda gjaldi er sú að ég óttast að útgerðin muni nota alls konar bókhaldsbrellur til þess að auka sem mest kostnaðinn af rekstrinum sjálfum, jafnvel að kaupa flutningafyrirtæki og setja inn í rekstur útgerðarinnar til þess að hafa sem minnsta afkomu eða hagnað af starfseminni. Ég tel að algjör óþarfi sé að vera að reyna að eltast við slíkar bókhaldsbrellur og nær væri að hafa þá frekar almenna veiðigjaldiið hærra.

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þessum spurningum.