140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrra atriðið hvort hluti af þessu samkomulagi hafi tryggt að hluti af veiðigjaldinu fari aftur til landsbyggðarinnar, eins og við í Framsóknarflokknum höfum lagt mjög mikla áherslu á, þá er það eitt af því sem er ekki í samkomulaginu og sem maður getur gagnrýnt harðlega, við höfum miklar áhyggjur af því. Þess vegna kom ég inn á það í minni stuttu ræðu áðan að þetta væri jú augljóslega landsbyggðarskattur.

Svarið við hinni spurningunni varðandi afkomutenginguna — það er þannig að þetta er í raun og veru óbreytt frumvarp. Afleiðingin af því er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna. Við komum ekki nálægt því. Það sem við reyndum að gera var að minnka umfang þessa og tryggja það sem sérfræðingar hafa bent á, til að mynda að afkomutengda gjaldið sé ekki auðlindarenta heldur hreinn og klár skattur sem komi mjög ójafnt niður á fyrirtækin, að það verði endurskoðað. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa í raun viðurkennt það með breytingartillögum, að færa veiðigjaldsnefndinni víðtækt umboð til að endurskoða nánast allt frá grunni.

Í rauninni má því segja að hér sé um að ræða að leggja á þetta auðlindagjald innan þess ramma sem ég nefndi, 12–13 milljarða, eða tæpa 14 milljarða, til eins árs. Að þeim tíma liðnum býst ég við að komin verði allt önnur niðurstaða, allt önnur sýn, allt önnur nálgun. Þá er mikilvægt að við tryggjum að þeir fjármunir sem þarna koma inn fari aftur út á land með einum eða öðrum hætti og það sé byggt inn í kerfið en renni ekki allt fyrst til ríkissjóðs og síðan séu stjórnmálamenn og ráðuneyti að deila bitlingum út til landsbyggðarinnar. Það er mjög ósanngjörn og óréttlát leið.