140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er orðið ljóst að frumvarpið um veiðigjöld fer breytt í gegnum þingið. Eins og málið var borið upp í upphafi gerðu menn sér enga grein fyrir afleiðingum þess. Frumvarpinu fylgdu engir útreikningar og það var ekkert í samhengi við hið stóra mál ríkisstjórnarinnar um breytingar á skipulagi á fiskveiðum við Ísland, svokallað stóra frumvarp.

Við í þinginu höfum staðið í miklu stappi og ekki hefur verið hægt að ljúka þinginu vegna gríðarlega mikils ágreinings á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við í stjórnarandstöðunni höfum notað það eina vopn sem við höfum til að reyna að hafa áhrif á þessi mál og árangurinn af því er að veiðigjöldin hafa verið lækkuð úr 24 milljörðum í 12,5 milljarða. Þetta er enn allt of hátt en ég tel að það muni leiða til mun betri niðurstöðu fyrir útveginn en upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir þegar taka átti inn 24 milljarða. Við höfum auk þess náð að koma í veg fyrir að stóra fiskveiðistjórnarmálið verði sett á dagskrá þar sem átti að gerbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu, sem einungis fyrir nokkrum dögum undirstofnun Sameinuðu þjóðanna tilnefndi Ísland til verðlauna í umhverfismálum.

Ég held að við getum þokkalega vel við unað miðað við það sem lagt var upp með. Veiðigjaldið er til eins árs og ef guð lofar verður komin ný ríkisstjórn áður en nýtt fiskveiðiár rennur í garð. Ég tel að hér hafi í rauninni verið unnið stórvirki í að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Þó að við höfum náttúrlega ekki unnið fullnaðarsigur þá er það mjög nálægt fullnaðarsigri.

Ég ætla ekki að hafa ræðuna lengri en beini því til ríkisstjórnarinnar að hún hugsi þau mál sem hún leggur fram mun betur næst.