140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á máli hæstv. utanríkisráðherra mátti skilja að ég teldi að guð almáttugur hefði kosningarrétt (Utanrrh.: Stýrði kosningunum.) en það var alls ekki það sem ég meinti heldur að í almætti sínu hlýtur hann að ráða nokkru um gjörðir mannanna. En hvað um það.

Það sem ég sagði í ræðu minni var ekki að frumvarpið væri orðið það gott að það mætti samþykkja. Þegar ég tala um nær fullnaðarsigur er ég að tala um að því frumvarpi var vísað frá sem átti að gerbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu sem hefði orðið til þess að grundvallarbreytingar hefðu orðið og mjög erfitt að vinda ofan af. Breytingar á veiðigjaldinu eru hins vegar tiltölulega einfaldar í framkvæmd og þær er hægt að gera með árs fyrirvara, getum við sagt, þannig að hægt er að lækka gjaldið á næsta þingi. Það var það sem ég átti við.

Hæstv. ráðherra spyr: Hvaða veiðigjald er það sem ég sætti mig við? Ég vil svara því til að það er eitthvað sem ég mundi kalla hóflegt veiðigjald. Mér fannst það sem sett var fram í fjárlagafrumvarpinu síðasta, 11 milljarðar, of hátt. Það flokka ég ekki sem hóflegt veiðigjald. Miðað við þá afkomu sem er núna í greininni tel ég að útvegurinn gæti ráðið við innan við 10 milljarða en þá ber að geta þess að það veiðigjald sem við erum að tala um núna, 12,6–12,7 milljarðar er nettóveiðigjald. Hið raunverulega er um 16 milljarðar brúttó.