140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:47]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla harðlega ummælum hv. þingmanns Tryggva Þórs Herbertssonar um að það megi túlka þær tillögur sem ríkisstjórnin er nú með um 12,7 milljarða gjald á sjávarútveginn sem einhvers konar sigur, enda hefur hv. þingmaður dregið það til baka nú í andsvörum. Þetta er enginn sigur, þetta er ofbeldi ríkisstjórnarinnar í garð greinarinnar. Greinin borgar í dag um 4,5 milljarða í auðlindagjald og heildarþol greinarinnar er ekki meira en svo að það megi hækka það svo nokkru nemur. Einstaka útgerð, einstaka fiskvinnsla stendur þannig að hún ræður við það, en ekki heildin. Þess vegna vil ég árétta það í spurningu til hv. þingmanns hvort hann hafi ekki mismælt sig þegar hann sagði að þetta væri sigur. (Utanrrh.: Stórsigur, sagði hann.) Það er ekkert skrýtið að maður spyrji svona vegna þess að þetta er nauðung og valdníðsla á íslenskum sjávarútvegi.

Þegar talað er um að gjaldið megi vera um 6 milljarðar plús/mínus, á hvaða forsendum er það? Það liggja engar tölur fyrir í útreikningi. Það sem þarf að gera er að vinna þetta mál frá A til Ö á nótum sáttaleiðarinnar og vonandi næst að gera það á næstu missirum, næstu tíu, tólf, fjórtán mánuðum, og koma þessu í brúklegt og boðlegt horf.

Ég hef aldrei gefið mikið fyrir skoðanir hagfræðinga. Þeir geta verið ágætir, en í dag hef ég talað við forsvarsmenn fjórtán stærstu útgerðarfyrirtækja og fiskvinnslufyrirtækja á Íslandi. Þeir kalla þetta ekki sigur, þeir kalla þetta skelfingu og ég tek mark á þeim, virðulegi forseti.