140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þingmaðurinn hljóti að hafa misskilið mig. Ég talaði um það sem fullnaðarsigur að stóra frumvarpið hefði farið út. Ég benti á að þetta veiðigjaldafrumvarp sem við sitjum uppi með sé til eins árs í senn og það yrði hægur vandi fyrir okkur þegar við tökum við stjórnartaumunum að lækka þetta gjald.

Það er ekki sigur að þetta frumvarp um veiðigjöld komi til atkvæðagreiðslu. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvaða áhrif það mun hafa ef þetta gjald verður til langframa á útveginum, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það mun knésetja mörg af fyrirtækjunum. Það yrði gerbreyting á greininni þannig að þetta er ekki sigur. En það er aftur á móti sigur að fiskveiðistjórnarkerfinu eins og við þekkjum það hafi ekki verið umturnað.