140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:52]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er að ljúka 2. umr. um frumvarp til laga um veiðigjöld. Ég vil koma á framfæri afstöðu minni í þessu máli og ítreka hana. Ég hef lagt áherslu á að veiðigjöld væru hluti af hinu almenna umhverfi við stjórn fiskveiða. Það hefði átt að leggja fram eitt frumvarp sem innihéldi hugsanleg veiðigjöld, ef það ætti að taka þau, og einnig aðra stjórn og fyrirkomulag í sjávarútvegi og fiskveiðum.

Ef það á að taka veiðigjald eins og hér er lagt til þá höfum við hv. þm. Atli Gíslason flutt um það breytingartillögu sem er reyndar í samræmi við þau frumvörp til laga um stjórn fiskveiða sem voru lögð fram á Alþingi á síðastliðnu ári. Við leggjum til að 50% af teknum veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skuli renna í ríkissjóð en 40% renni til sveitarfélaganna til sjávarbyggðanna og síðan renni 10% til rannsóknar- og þróunarsjóðs í sjávarútvegi.

Samfélögin og sjávarbyggðirnar út um land eru mörg hver mjög háð fiskveiðunum og afkomu þeirra sem þar stunda útgerð. Vissulega hefur þar mikið og margt farið úrskeiðis og mjög svo en við kippum því ekki til baka endilega með álagningu veiðigjalda. Veiðigjöld eiga að vera hluti af heildarstjórn atvinnugreinarinnar. Ég vil líka minna á að það að taka sértæk gjöld af einni atvinnugrein umfram aðrar án þess að það sé gert sem hluti af heild er líka mjög varhugavert og bent hefur verið á að óvíst sé hvort það standist jafnræðisreglu.

Það er líka varhugavert að leggja fram sérstakt frumvarp um veiðigjöld þar sem ekki er tekið mið af öðrum breytingum sem yrðu gerðar á lögum um stjórn fiskveiða. Núna hefur komið fram að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða kemur ekki til afgreiðslu eða vinnu í þinginu frekar. Þá verða veiðigjöldin bein skattheimta á viðkomandi atvinnugrein og byggðarlög. Það er alveg sjálfsagt að sjávarútvegurinn borgi og greiði það sem hann getur eins og aðrir til samfélagsins, en burðargetan þar er samt misjöfn. Ég óttast að þau veiðigjöld sem hér eru lögð til mismuni fyrirtækjunum og leiði til aukinnar samþjöppunar í sjávarútveginum. Þau leiði með beinum og óbeinum hætti til þess að þeir sterku verði áfram sterkari og eigi meiri tök á að sölsa undir sig þau fyrirtæki og þá aðila sem eru með einhæfari vinnslu, einhæfari útgerð og þar af leiðandi minni sveigjanleika til að mæta slíkri gjaldtöku. Engin sérstök úttekt hefur í sjálfu sér verið gerð á þessum þáttum.

Við höfum hins vegar undanförnum árum horft á upp á stóraukna samþjöppun í sjávarútvegi. Við höfum séð hvernig minni fyrirtæki hafi orðið að gefast upp, lúta í gras og stærstu fyrirtækin hafa gleypt þau með tilheyrandi áhrifum á viðkomandi byggðarlög. Það er varhugavert hvernig hér er gengið fram í þessari umræðu um veiðigjaldatöku og hún slitin úr tengslum við aðra umgjörð sjávarútvegsins, aðra stjórn á ráðstöfun fiskveiða. Ég hefði viljað sjá greinar sem takmörkuðu hlutfallslega stærð fyrirtækja í sjávarútvegi, takmörkuðu krosseignartengsl í sjávarútvegi o.s.frv., greinar sem styrktu frekar það skipulag og þann grunn í sjávarútvegi sem við viljum hafa sem atvinnuveg dreifðan vítt og breitt um landið. Leiðin er ekki að leggja á einhliða veiðigjald án þess að sjá hverjar afleiðingarnar geta orðið í víðum skilningi. En engu að síður vil ég minna á að við veiðigjaldatöku, sértæka gjaldtöku eins og hér er, tel ég að hluti af innheimtu á gjaldinu eigi þá að renna til sjávarbyggðanna til að styrkja þær en þetta verði ekki einhliða tekin gjöld sem renni beint í ríkissjóð. Þá munu margar sjávarbyggðir horfa á eftir fjármagni sem annars hefði mátt nýta í heimabyggðum til að styrkja þær. Áhrif þessa frumvarps á stöðu margra sjávarbyggða, og ég tala ekki um þær minni, eru alveg ófyrirséð.

Þetta skulu vera mín varnaðarorð um einhliða skattheimtu og gjaldtöku á þessa atvinnugrein sem á að sjálfsögðu eins og aðrar að leggja sitt til samfélagsins.