140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir að hafa þaggað niður í hæstv. utanríkisráðherra.

Ef maður lítur 10–20 ár aftur í tímann, er það þá eingöngu núverandi hæstv. ríkisstjórn sem á sök á þessu máli? Er þetta ekki þróun sem samtök útgerðarmanna hafa staðið fyrir að einhverju leyti með því að fallast á sáttaleiðina því að menn semja ekki um afnot af einhverju nema við eigandann, ríkið? Hefur ekki komið fram sú ríkisvæðing á kvótanum sem útgerðin byggði þar sem menn ganga á lagið? Menn ganga á lagið með því að segja að ríki sé sama og þjóð og þeir ganga á lagið með því að segja að kvótinn sé sameign þjóðarinnar eða fiskstofnarnir við strendur Íslands séu sameign þjóðarinnar. Með því að nýta sér þá hugsun að þjóðin eigi þetta og breyta því svo yfir í ríkið kemur þessi mikla skattlagning til ríkisins og sú kommúníska hugsun að stórhækka skatta. En, eins og kemur fram í veiðistjórnarfrumvarpinu, um leið og menn stórhækka gjöldin skerða þeir líka athafnafrelsi greinarinnar og möguleika hennar á að græða til að búa til arð úr auðlindinni.

Ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki meinið að allir flokkar á þingi hafi stuðlað að þessu og samtök útgerðarmanna líka, að þeir hafi ekki varað sig á því að gera ekki ríkið að fulltrúa þjóðarinnar á þennan hátt.