140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:11]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aldrei svo að það sé við einn að sakast, en hæstv. núverandi ríkisstjórn hefur umfram allar aðrar ríkisstjórnar á 25 ára tímabili kvótakerfisins gengið allt of langt — allt of langt. Það kann að vera réttlætanlegt af mörgum ástæðum að ganga langt en hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur gengið svo langt að keyrt hefur um þverbak. Það er vandinn sem við glímum við. Auðvitað áttu til að mynda útgerðarmenn sjálfir að vera búnir að benda á fyrir mörgum árum að ástæða væri til að snyrta til ákveðna kafla í kerfinu, það segir sig sjálft, hvort sem það er veiðiskyldan eða annað. Þeir áttu að hafa frumkvæði að því, en þeir lifðu í ákveðnu skjóli sem allir bjuggu til, sama hvaða flokk var um að ræða. Síðan kemur að því að það reynir á og menn ná samkomulag í vinnuhópi 23 virkra aðila í samfélaginu sem allir koma að þessum málum, til sjós og lands, í stjórnmálum og öðrum þáttum. Út úr því kom sáttaleiðin sem átti að vinna eftir og menn hlökkuðu til að finna þar lausn sem væri þokkaleg sátt um. Það má aldrei reikna með allsherjarsátt í svona hagsmunamálum heldur þokkalegri sátt. Nei, þá henti ríkisstjórnin því í ruslakistuna og byrjaði að dekra við sérvitringana í hæstv. ríkisstjórn og í hv. stjórnarflokkum sem hugsuðu ekki um neitt nema eigin hugmyndir þó að þær hefðu engan bakgrunn og væru eins og nýju fötin keisarans.

Fiskimiðin eru eign þjóðarinnar og eru því eins og eign í traustum banka sem á að ávaxta sig fyrir þjóðina í heild (Forseti hringir.) og á því eigum við að byggja, virðulegi forseti.