140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni hvort útgerðarmenn sjálfir og samtök þeirra hefðu ekki rétt einhverjum litla putta sem hefði svo hrifsað til sín alla höndina. Ég ætla ekki að nefna hver það er. (ÁJ: Skildi ekki hvað …) Þegar menn fallast á að gera samninga við ríkið, þó í litlu sé, er alltaf hættan að ríkið taki meira. Einhvern tíma í framtíðinni munu menn þurfa að vinda ofan af því sovéska kerfi sem er í kringum sjávarútveginn vegna þess að það er búið að setja svo mikið helsi á sjávarútveginn, ekki bara núverandi hæstv. ríkisstjórn heldur líka fyrri ríkisstjórnir, að menn muni þurfa að endurskoða það.

Hvað er eiginlega þjóð? Getum við skattlagt til ríkisins það sem þjóðin á? Ég geri mikinn mun á ríki og þjóð og ég vona að hv. þingmaður geri það líka, alla vega í síðasta lagi þegar hann borgar skattana sína.