140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[20:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. framsögumaður frumvarps til laga um menningarminjar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, var að segja. Þetta var flókið og mikið mál og mikið unnið með það á tveimur þingvetrum. Málið tók að sjálfsögðu miklum breytingum, við tókum það inn á milli 2. og 3. umr. og gerðum þá fjórar breytingartillögur. Nú höfum við farið enn þá betur ofan í það og kom fram málefnaleg og jákvæð tillaga frá hv. þm. Merði Árnasyni sem við teljum málinu til framdráttar og bóta. Nefndin leggur til að hún verði samþykkt. Nefndin hefur öll verið samferða í þessu máli og unnið það mjög vel og vandvirknislega undir forustu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Við teljum að þessar tvær breytingar á lokasprettinum, annars vegar tillagan frá hv. þm. Merði Árnasyni og hins vegar það að kippa út einni af fjórum breytingartillögum úr nefndarálitinu, bæti enn frekar þetta mikilvæga mál sem er rammi utan um fornminjar og menningarminjar hvers konar hér í landi. Sitt sýnist hverjum og ýmislegt álitaefni sem áfram þarf að skoða á næstu mánuðum (Forseti hringir.) en við leggjum til að þetta verði svo afgreitt að lokum.