140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:34]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er frumvarp um veiðigjöld og það er í rétta átt. Þau eru hins vegar ekki nógu há og kolröng aðferðafræði er notuð við að reikna þau út. Það væri nær að leyfa útgerðinni að ákveða sjálf hvaða veiðigjöld hún vill greiða með útboðum aflaheimilda á hverju ári. Þannig næðist eðlilegasta og besta niðurstaðan í þessar deilur um veiðigjöld. Það verður ekki gert á þinginu í dag en það verður vonandi síðar.

Afgreiðsla þessa máls í þinginu og það samkomulag sem gert hefur verið um það vekur hins vegar upp stórar spurningar um framgang lýðræðisins á Alþingi og um umboð stjórnmálaflokka til að vinna með mál vegna þess að framlögð mál um fiskveiðistjórn ganga þvert gegn því sem ríkisstjórnarflokkarnir sögðu í aðdraganda kosninganna 2009.