140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Allar ferðir hefjast á einu skrefi. Ég tel að hér sé tímamótafrumvarp á ferð hvað það varðar að sjávarauðlindin sem tilheyrir þjóðinni sameiginlega skili eiganda sínum sanngjörnum umframarði í góðu árferði fyrir sjávarútveginn. Þegar frá líður verða það lögin sem gilda og lögin sem tala en ekki stór orð hér. Íslenskur sjávarútvegur býr við óvenjugóð skilyrði þessi missirin. Fjármunamyndun er meiri í greininni en nokkru sinni fyrr í sögu hennar, má jafnvel ætla um 80 milljarðar á þessu ári. Það er hafið yfir allan vafa að sú gjaldtaka sem hér er þá á ferðinni eða í vændum, miðað við þær breytingar sem til standa með þessu frumvarpi, sé óviðráðanleg fyrir sjávarútveginn. Það mun koma í ljós að þrátt fyrir breytingarnar og þessa gjaldtöku eru bjartir tímar fram undan í sjávarútveginum og hann á í vændum eitt sitt besta ár.