140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

mat á áhættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem stafar af vandamálum evrunnar.

836. mál
[20:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð rösklega mælt að halda því fram að vandamál Spánar hafi ekkert með evruna að gera en ég ætla ekki að eltast við það. Hitt er að tilgangur þessarar skýrslu er sá að taka saman og reyna að glöggva sig á þeim hættum sem steðja að íslensku efnahagslífi vegna mögulegs hruns evrunnar eða meiri háttar vandkvæða sem geta sprottið upp vegna stöðu þeirrar myntar. Um er að ræða okkar helstu viðskiptalönd og öllum eru kunnir þeir erfiðleikar sem evruþjóðirnar standa nú í.

En það er auðvitað líka sérstakt fyrir okkur að heyra að það sé talið nauðsynlegt að víkka út hugmyndina á bak við þessa skýrslu og ég get í sjálfu sér tekið undir þá skoðun að það sé ástæða til að horfa til fleiri átta. Í þessu máli er hins vegar rétt að afmarka sig vegna þess að þessi vandi er svo sannarlega uppi og það er ástæða fyrir íslensk stjórnvöld að taka þetta saman og birta þinginu. Svo geta menn auðvitað lagt til fleiri skýrslur og fleiri rannsóknir og komið fram með beiðnir um slíkt. Í þessu máli er þetta hins vegar algerlega skýrt, (Forseti hringir.) það þarf að leggja fram á Alþingi skýrslu þannig að það sé hægt að ræða þá vá sem steðjar að okkur vegna stöðu evrunnar.