140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist að þær breytingartillögur sem hér er verið að gera flæki lögfræðina ansi mikið. Nú er ég ekki lögfræðingur þannig að það er kannski ekki vanþörf á að flækja hana.

Hér er talað um að þetta eigi við þar sem skiptum sé ekki lokið og ekki búið að framselja, þ.e. þar sem salan sé ekki fullnustuð — hvað gerist ef sölunni er fullnustað í kvöld? Hvernig harmónerar þetta við gildistökuákvæði sem á að vera 15. júlí? Þá fá menn langan tíma til að ganga frá málum þannig að þau mál heyri ekki undir þessar breytingartillögur.