140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ræðu hans. Efnislega er hann sammála okkur um nauðsyn þessarar breytingar en það sem ég held að okkur greini á um varðar meðal annars kostnað.

Þá ber að hafa í huga að gjafsóknarkostnaður fellur ekki strax. Gjafsóknar er óskað að venju í málum áður en málsókn hefst og síðan tekur málsókn kannski eitt til tvö ár áður en dómur fellur. Það er því ekki þannig að núna í bráðina muni aukast mjög sókn í þetta fjármagn. Það er það sem ég átti við með að þetta ætti ekki að leiða til aukins kostnaðar. Vera kann að þessum málum fjölgi í framtíðinni og það er vel, þannig náum við aftur þeirri stöðu sem æskilegt er. En þessi kostnaður fellur sem sagt hægt.

Í öðru lagi er kannski það mikilvægasta í þessu það sem er fellt út úr núgildandi 126. gr. laganna. Í 1. mgr. núgildandi 126. gr. segir í lokamálsliðnum:

„Ráðherra getur jafnframt með reglugerð kveðið á um hámark gjafsóknarfjárhæðar í einstökum málaflokkum sem og um hámark tekna sem umsækjandi má hafa til að fá gjafsókn vegna efnahags.“

Þetta ákvæði um hámark tekna er tekið út og það eitt látið standa eftir að settar verði reglur um hvernig fjárhagsleg staða þess sem sækir um er metin. Þetta hvetur til þess að ráðuneytið í störfum sínum og í reglugerð forgangsraði, t.d. með því að beita 1. mgr. 127. gr. betur en gert hefur verið, þ.e. ábyrgjast kannski ekki allan kostnað heldur grunnkostnað eða aðeins tiltekinn kostnað. Þannig að ráðuneytin hefur fjölmörg úrræði til að sníða þetta að fjárveitingum hverju sinni auk þess sem Alþingi á auðvitað (Forseti hringir.) að standa að baki ráðherranum í fjárveitingu.