140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er fyrst og fremst að hvetja til annars vinnulags við þessar lagabreytingar. Nú kemur fram í máli hv. þingmanns að hann telur að það verði þrátt fyrir allt kostnaðarauki af þeim lagabreytingum sem við erum að ráðast í. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá honum að það hlýtur að gerast ef við ætlum ekki að ganga á rétt þeirra sem eru tekjulægstir og njóta nú gjafsóknar. Ef við fáum stóraukið fjármagn inn í þennan málaflokk mundi ég að sjálfsögðu fagna því. Það er það sem ég er fyrst og fremst að benda á vegna þess að ég er sá aðili í kerfinu sem mætir því tekjulága fólki sem ekki fær náð fyrir gjafsóknarnefnd með mál sín en vildi gjarnan fá. Ég vildi gjarnan fá aukið fjármagn til að hækka þessi viðmiðunarmörk. Það er það sem ég er að nefna.

Annað er að ég tel að það sé hægara sagt en gert að smíða reglugerð á nokkrum dögum eða vikum. Þetta er stærra mál en svo. Ég tel að við þurfum að leggjast yfir þetta og hef þess vegna hvatt til þess að við látum þessa lagagrein bíða fram á haustið, eins og ég hef boðið og íhugum þá lagabreytingar.