140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum láta reyna á það hvernig Alþingi bregst við þegar við afgreiðum fjárlög. Það er staðreynd að gjafsóknarliðurinn hefur verið í mínus. Það hefur farið meira í gjafsóknir en ætlað hefur verið til málaflokksins af hálfu fjárveitingavaldsins á undanförnum árum. Þetta er málaflokkur sem á í fjárhagslegum þrengingum, það er staðreynd.

Ég held að við í þinginu þurfum að temja okkur önnur vinnubrögð, sömu vinnubrögð og við höfum tekið upp í stjórnsýslunni og hjá framkvæmdarvaldinu. Þegar mál koma inn til þingsins fari þau í kostnaðarmat og þá sé ekki horft til næstu mánaða heldur til næstu ára með það í huga að reyna að kortleggja þau fjárútlát sem við leggjum á ríkissjóð.