140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[22:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að vera ekki einn af meðflutningsmönnum á þessu þingmáli sem flutt er af meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Mér fannst annars vegar ekki nógu langt gengið í frumvarpinu sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagði fram í því að tryggja rétt þeirra sem beittir hafa verið órétti á grundvelli umdeildra og jafnvel ólöglegra gengislána. Hins vegar var ég ósátt við ferlið sem málið var sett í í þinginu, ferlið sem fólst í því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd var látin flytja þingmálið en síðan átti að senda það inn til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til frekari vinnslu og var það gert.

Þegar tvær nefndir koma að vinnslu máls í þinginu er mun meiri hætta á að gerð verði mistök. Við megum alls ekki við mistökum í réttindabótum til handa þeim sem hafa lent í hremmingum vegna tregðu stjórnvalda til að viðurkenna ólögmæti gengislána. Við höfum þegar gert að minnsta kosti ein mistök þegar við samþykktum umdeild lög um endurútreikninga á gengislánum í desember 2010 og settum inn ákvæði sem var svo óskýrt varðandi endurupptöku að það var ónothæft að mati héraðsdóm.

Frú forseti. Ég vil samt nota þetta tækifæri til að fagna breytingartillögu sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar gerir við frumvarp hv. efnahags- og viðskiptanefndar, breytingartillögu sem felur í sér að skiptastjóra er lögð sú skylda á hendur að greiða ekki út úr þrotabúi sé um að ræða umdeilda kröfu sem gjaldþrotið eða nauðungarsalan grundvallast á. Hér er vissulega um réttarbót að ræða fyrir þá sem nú þegar hafa farið í gegnum gjaldþrot á grundvelli umdeildra gengislána.

Breytingartillögur hv. allsherjar- og menntamálanefndar ganga hins vegar ekki nógu langt í að aðstoða einstaklinga sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða misst eigur sínar vegna nauðungarsölu á grundvelli umdeildra gengislána. Það gera hins vegar breytingartillögur sem komu fram rétt fyrir þessa umræðu frá hv. þm. Magnúsi M. Norðdahl, Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur og fagna ég þeim tillögum þar sem ég tel að þær bæti úr þeim mistökum sem þingið gerði í desember 2010 og leggi til ákvæði um endurupptöku sem ættu að vera nothæf fyrir dómstólum.

Aðstæður eru þannig, frú forseti, að í dag leigir hópur einstaklinga húsnæði sitt af bankanum sem krafðist nauðungarsölu eða gjaldþrotaskipta. Síðan er annar hópur sem hefur verið úrskurðaður gjaldþrota og misst allar eigur sínar til kröfuhafa á grundvelli umdeildra gengislána. Það er því mjög mikilvægt að þingheimur samþykki þessar breytingartillögur frá Magnúsi M. Norðdahl, Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur til að gera þessum tveimur hópum kleift að endurheimta mannorð sitt eða eigur sínar séu þær enn í vörslu bankans og jafnvel leigðar út til fyrrverandi eigenda eignarinnar.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd ber fyrir sig andstöðu réttarfarsnefndar við að innleiða tímabundinn endurupptökurétt til handa þessum hópum. Telur réttarfarsnefnd varhugavert að hrófla við fullnustugerðum sem væri þegar lokið. Það eru sem sagt rök réttarfarsnefndar að varhugavert sé að hrófla við þessum fullnustugerðum.

Frú forseti. Mér finnst afstaða réttarfarsnefndar eiga rétt á sér undir öllum venjulegum kringumstæðum en við erum að taka á vanda fólks sem hefur verið beitt órétti. Á meðan kröfuhafar hafa fengið að sækja rétt sinn í gegnum nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti hefur fjöldi fólks þurft að sæta því að missa eigur sínar og mannorð á grundvelli krafna sem síðan voru dæmdar ólöglegar. Í ljósi þessa get ég ekki tekið undir álit réttarfarsnefndar og ég hvet þingmenn eindregið til að samþykkja að þær breytingartillögur sem hafa komið fram frá þremur þingmönnum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þær munu bæta fyrir það óréttlæti sem margar fjölskyldur hafa orðið fyrir vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki viljað viðurkenna í verki að gengistryggðu lánin voru ólögleg þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um að svo væri.