140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[22:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mér kært en tilfinningar eru kannski blendnar. Það er margt mjög gott í því en það er auðvitað viðbrögð við þeim hörmungum sem fylgdu því að beina málum fólks sem var með gengistryggð lán inn í dómskerfið. Ég er áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd og tók þátt í að vinna þetta frumvarp en af tæknilegum ástæðum er ég ekki flutningsmaður, ég er bara áheyrnarfulltrúi í nefndinni og get ég ekki verið hluti af þeim meiri hluta sem þar er.

Niðurstaða Hæstaréttar í öllum þessum gengistryggingalánamálum er ekki ljós og væntanlega verða þessi mál ekki skýrð að fullu fyrr en einhvern tíma í haust eða næsta vetur. En þetta er einhvers konar happdrætti andskotans því að afleiðingarnar af þessu öllu eru gríðarlegt misrétti, finnst mér. Þetta hefur bitnað mjög illa á fólki sem gat ekki staðið af sér þær miklu hækkanir sem urðu á þessum lánum þegar krónan féll, hefur kannski misst allt sitt og of langur tími liðið til að hægt sé að vinda ofan af því. Það er líka mikil mismunun eftir því hjá hvaða fjármálafyrirtækjum fólk fékk lán. Húsnæðislán Íslandsbanka hafa til dæmis nýlega verið dæmd lögleg í Hæstarétti. Ég var að skoða mál fólks sem hafði tekið lán árið 2004; leiðrétting þeirra í kjölfar laga nr. 151/2010 var lítil sem engin. Hún var um 5% og þannig mun lánið standa. Það er sem sagt tvöföldun á þeim höfuðstóli sem fólkið situr uppi með og það virðist ekkert ætla að breytast.

Það er margt í þessu sem ég fagna. Mig langar að taka sérstaklega undir orð hv. þingmanna Eyglóar Harðardóttur og Álfheiðar Ingadóttur áðan um gjafsóknina. Við þurfum að hjálpast öll að við að tryggja meira fjármagn í þennan málaflokk.

Ég stend að breytingartillögu með Magnúsi Norðdahl og Eygló Harðardóttur sem ég held að væri mjög til bóta. Ég vil hvetja þingmenn til að samþykkja hana.