140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[22:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hafist var handa um undirbúning frumvarps þess sem hér er til umræðu í ráðherratíð minni í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Þá lá fyrir eftir hrun að sparisjóðum fækkaði mjög, þeir fóru mjög illa út úr hruninu, og jafnframt að lagabreytingar frá árinu 2009, sem ætlað var að greiða fyrir starfsemi sparisjóða, höfðu ekki skilað þeim árangri að fjölga sparisjóðum og engir nýir sparisjóðir höfðu bæst við.

Það er ljóst að aðkomu ríkisins eru takmörk sett til að tryggja starfsemi sparisjóða á almennum markaði en hitt er annað mál að samkeppnishagsmunir mæla eindregið með því að stutt sé við sparisjóðakerfið. Það er mjög dapurleg mynd sem blasir við íslensku viðskiptalífi ef hér gengur fram sú atburðarás sem við höfum séð byrja á undanförnum missirum þar sem þrír stórir bankar kaupa upp litla sparisjóði og sitja einir að markaði. Þeir eru í kjölfar skuldbreytinga við þorra fyrirtækja í landinu í þeirri aðstöðu að flest fyrirtæki landsins skulda þeim og í þeim lánasamningum hefur þeim verið í lófa lagið að hafa ákvæði sem takmarka rétt viðkomandi fyrirtækja til að semja við önnur fjármálafyrirtæki.

Ef hlutirnir ganga fram sem horfir er veruleg hætta á að við verðum með þrjá stóra einsleita banka og litla möguleika minni aðila til að keppa á fjármálamarkaði. Þá mun mjög fljótt þrengja að samkeppnisstöðu sjálfstæðra fjárfestingarbanka eða lítilla fjármálafyrirtækja sem hafa verið að keppa um afmarkaða þjónustu við þessa stóru banka. Það er þess vegna mikið til vinnandi að ýta undir fjölbreytta samkeppni á fjármálamarkaði við þessar aðstæður.

Hluti af því er að greiða fyrir því að fyrirtæki í heimabyggð, sem hafa sýnt áhuga á því á ýmsum svæðum að koma að rekstri sparisjóða, geti með einföldum hætti gert það og því eru þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til mjög mikilvægar. Þær munu greiða fyrir því að einstakir aðilar sem hafa á því áhuga sjái sér hag í því að leggja fé inn í sparisjóði í sinni heimabyggð. Þetta verður ekki nein allsherjarlausn en þetta er tæki til að auka á þessa möguleika.

Við eigum mikið undir því að fjármálakerfið okkar verði samkeppnishæft og að virk samkeppni verði á fjármálamarkaði og sparisjóðakerfi getur verið mikilvægur þáttur í því efni. Tvennt þarf þá að koma til til að sú samkeppni sé raunverulega möguleg. Það þarf að vera einfalt að reka minni fjármálastofnanir eins og sparisjóði í nærumhverfinu án mikils kostnaðar og án þess að til þess þurfi jafndýr og kostnaðarsöm leyfi og fylgja rekstri stærri fjármálastofnana. Á hinn bóginn þarf að vera tryggt að þessi fyrirtæki geti átt aðgang að traustri heildsölufjármögnun til að keppa við hina stærri banka.

Það er algert lykilatriði að við gerum Íbúðalánasjóði kleift að fjármagna með heildsölukerfi íbúðalán hjá sparisjóðum vítt og breitt um landið og styrkjum þar með samkeppnisstöðu þeirra á markaði í samkeppni við viðskiptabanka. Þetta er næsta verk sem bíður, þ.e. að búa til farveg fyrir Íbúðalánasjóð til að taka þátt í heildsölufjármögnun á fjármálamarkaði, til að auka á samkeppni á fjármálamarkaði og gera litlum einingum mögulegt að keppa með kraftmiklum hætti við þá stóru banka sem hafa lykilstöðu og ráðandi stöðu á markaðnum í dag.