140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[22:35]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem fyrst og fremst er verið að fjalla um sparisjóðina. Ég tek það fram í sambandi við frumvarpið að mér þykir gott að lagt skuli fram sérstakt frumvarp um sparisjóði. Þar með er verið að staðfesta þann vilja að sparisjóðakerfið sé áfram til staðar í landinu.

Ég get ekki leynt óánægju minni, sem kom einmitt fram í kringum sparisjóðaumræðuna og hrun bankanna, yfir því að stjórnvöld þá skyldu ekki beita sér fyrir því að bjarga sparisjóðakerfinu. Sparisjóðirnir urðu fyrir áfalli af hálfu aðila sem vildu fyrst og fremst nota kerfið til að ná sér í fé út úr kerfinu, út úr sparisjóðunum sem eru að mínu viti fyrst og fremst samfélagslegar fjármálastofnanir sem bera ábyrgð og þjóna ákveðnu samfélagi eða ákveðnu fólki sem hefur slegið sér saman um að mynda fjármálafyrirtæki fyrst og fremst til að veita þjónustu en ekki til að kalla eftir eigin arði. Ég hef haldið margar ræður á Alþingi um sparisjóðina og það hvernig þeir sem stofnuðu þá í upphafi voru fyrst og fremst að byggja upp þessa þjónustu en gerðu aldrei tilkall til að fá þar af arð.

Ég vil líka segja það síðasta ræðumanni, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páli Árnasyni, til hróss að þó við séum ekki sammála í þeim peningalegu áherslum eða áherslum um rekstur fjármálafyrirtækja tók hann upp umræðu í ríkisstjórn og hér á Alþingi um leiðir til að bjarga sparisjóðunum af því að þeir væru ákveðinn hluti af fjármálaþjónustu landsins. Vinna í þá veruna fór í gang fyrir hans frumkvæði og væru ýmsir sparisjóðir, ég nefni Sparisjóð Skagfirðinga eða Sparisjóðinn Afl í Skagafirði og á Siglufirði, sennilega fullkomlega liðnir undir lok ef hann sem þáverandi ráðherra hefði ekki beitt sér í málinu með heimamönnum í því að berjast gegn þeim áformum Arion banka að leggja þann sparisjóð niður. Framganga Arion banka í þeim efnum, þegar þeir hringdu meira að segja í stofnfjáreigendur til að reyna með hæfilegum sannindum að fá þá til að afhenda Arion banka stofnféð — sem betur fer hafa þeir bakkað út úr því núna en bíða við dyrnar svo að ekki er ljóst hvað gerist. Framganga þeirra aðila sem fengu sparisjóðina í hendurnar frá ríkinu með beinum eða óbeinum hætti var alveg forkastanlegt.

Varðandi þetta frumvarp verð ég að gera alvarlegar athugasemdir við að opnað sé á hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Sparisjóðirnir höfðu einmitt þá sérstöðu að vera fyrst og fremst samfélagsstofnun, ekki þar sem hlutirnir gætu gengið kaupum og sölum og þannig gefið eigendunum arð. Í þessu frumvarpi er verið að opna á það. Í 4. gr. segir þó, með leyfi forseta:

„Til þess að fá starfsleyfi sem sparisjóður og eiga samvinnu um sameiginlega markaðsstarfsemi, skal fjármálafyrirtæki skilgreina í samþykktum sínum samfélagslegt hlutverk sitt og hlíta ákvæðum 63. gr. um ráðstöfun hagnaðar og arðgreiðslur. Sparisjóður skal afmarka samfélagslegt hlutverk sitt við tiltekið landsvæði, í lögum þessum nefnt starfssvæði.“

Það sem mér finnst gott í þessari grein er að þarna skuli samfélagslegt hlutverk vera undirstrikað, að án þess eigi sparisjóðurinn í sjálfu sér ekki neinn tilverurétt. Einnig er dregið samasemmerki á milli samfélagslegs hlutverks og starfssvæðis. Undir þeim formerkjum er heimilt að nota orðið sparisjóður í nafni eða til skýringar á starfsemi sinni.

Mér finnst að þessi atriði eigi að vera skýrari í lögunum um að sparisjóður geti einungis starfað sem slíkt samfélagslegt fyrirtæki og sé ekki heimilt að hlutafélagavæða sig. Ef þeir fá heimild til að hlutafélagavæða sig finnst mér að þeir eigi ekki að fá heimild til að kalla sig sparisjóði. Um leið og þeim er breytt í hlutafélag eru þeir orðnir að viðskiptabanka á almennum markaði. Ég er því alveg sammála því sem kemur fram í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir flytur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér eigið fé með því að opna á ný fyrir þann möguleika að breyta sparisjóði í hlutafélag í stað þess að félagaform þeirra verði bundið við sjálfseignarstofnanir.“

Mér finnst þetta vera grundvallaratriði í málinu og tek undir með hv. þingmanni þar sem hann segir í nefndaráliti:

„Slíkt markmið er að mati minni hlutans uppgjöf gagnvart því mikilvæga verkefni að endurreisa sparisjóðakerfið á félagslegum grunni, þ.e. með samfélagslegum markmiðum í stað hagnaðarmarkmiðs. Sparisjóðir voru stofnanir til að veita litlum viðskiptavinum utan stórra markaðssvæða þjónustu sem viðskiptabankar töldu ekki svara kostnaði. Markmiðið var að stuðla að uppbyggingu samfélagsins og ekki síst nærsamfélaga með lánum á hagstæðum kjörum. Sparisjóðir voru gerðir að sjálfseignarstofnunum til að tryggja að hagnaðurinn af starfseminni rynni ekki til hluthafanna heldur til lækkunar á lántökukostnaði viðskiptavinanna og til samfélagslegra verkefna.“

Þetta finnst mér vera lykilatriði varðandi sparisjóðina. Við eigum að endurreisa þá á þeim grunni sem þeir störfuðu á, á þeim hugsunargrunni, á þeim samfélagsgrunni sem þeir voru stofnaðir um og áformaðar hugmyndir um að heimila honum að breytast í hlutafélag finnst mér algert stílbrot og ganga gegn þeim áformum sem frumvarpinu er ætlað að stofna, styrkja og endurreisa sparisjóðakerfið.

Ég tek undir þær breytingartillögur sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir flytur og einnig breytingartillögur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson flytur um að styrkja stöðu sparisjóðanna og að þeir sem kaupa sér stofnbréf í sparisjóðunum geti dregið það frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu. Það yrði hvatning fyrir fólk að styrkja og efla sparisjóðina í nærumhverfi sínu.

Frú forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Það er þó skondið að heyra menn halda því fram að sparisjóðirnir geti frekar komið inn á minni svæði og staðið þar að öflugri og samkeppnishæfri fjármálaþjónustu þegar við horfum svo upp á Landsbankann, banka allra landsmanna, ákveða að loka útibúum sínum á þessum sömu stöðum. Við erum að tala um að efla og styrkja sparisjóðina á ákveðnum stöðum á sama tíma og Landsbankinn kemst upp með að loka útibúum sínum vegna þess að óarðbært sé að halda þar úti þjónustu. Það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi þeirra sem eru að verja gerðir Landsbankans í þeim efnum.

Ég er alfarið á móti áformum um að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Ég leit svo á að það hefði verið stefna okkar allra og stefna ríkisstjórnarinnar eftir bankahrunið að ríkið ætti einn öflugan banka og væri ekki að bjóða til sölu hlutina í honum. Ríkið á verulegan meiri hluta í Landsbankanum og á að geta deilt því húsbóndavaldi eða komið ábendingum á framfæri sem það getur gert sem aðaleigandi Landsbankans. Það er algert stílbrot að ætla sér að fara að bjóða hluta hans til sölu en halda síðan að sparisjóðirnir geti komið og leyst Landsbankann af þar sem hann telur að ekki sé arðbært að reka útibú.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að ég styð þá breytingartillögu sem hér er lögð til um að leggjast gegn því að sparisjóðir hafi heimild til að breyta sér í hlutafélag. Ég tel hana grundvallaratriði fyrir því að sparisjóðirnir geti starfað eins og við viljum að þeir geri á grundvelli hugsana sinna og þá á hann ekki að fá heimild til að breyta sér í hlutafélag.