140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta frumvarp. Framtíð sparisjóðakerfisins mun ráðast mjög mikið af því hvernig ríkið hyggst fara með þann eignarhlut sem það hefur núna í að minnsta kosti fimm sparisjóðum í landinu. Ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þetta í sérstakri umræðu sem efnt var til að mínu frumkvæði fyrr á þessu þingi. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði því þannig varðandi stofnfjáreign ríkisins og meðferð þess, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er einfaldlega þannig að það sem ríkið óskar sér að gera í þeim efnum er að stofnfjáreigendur fái þann hlut, leysi hann til sín, bæði þeir sem fyrir eru og nýir, til að byggja á nýjan leik upp öflugt stofnfjáreigendabakland fyrir sparisjóðina. Svo fremi sem grundvöllur sé fyrir rekstri þeirra og stuðningur og vilji sé til þess í heimabyggðum tel ég engan vafa leika á því að það er þetta sem ríkið á að reyna að laða fram og beita afli sínu til að gera.“

Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga, það er þá stefna ríkisstjórnarinnar að sala á eignarhlut í sparisjóðunum fari til stofnfjáreigenda, nýrra og (Forseti hringir.) þeirra sem fyrir eru, en ekki til fjármálafyrirtækjanna sem mundi hafa það í för með sér, ef það væri gert, að sparisjóðakerfið mundi liðast í sundur og líða undir lok. Það væri hörmulegt.