140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Tilgangur þessa frumvarps er að auðvelda sparisjóðum vítt og breitt um landið að endurfjármagna sig. Fyrir síðustu aldamót var hlutafélagaforminu ívilnað á þann hátt að almenningur gat keypt hlutabréf og fengið skattafslátt. Þar var hlutafélagaformið meðal annars tekið fram yfir það form sem sparisjóðirnir búa við. Nú legg ég það fram að almenningur eigi að geta keypt stofnfjárbréf í sínum sparisjóði gegn því að fá hóflegan skattafslátt til þess, þannig mundum við efla sparisjóðina í landinu, þannig mundum við auðvelda ef vilji væri fyrir hendi að sparisjóðirnir gætu endurfjármagnað sig. Það eru mér mikil vonbrigði að sjá hversu margir þingmenn ætla að greiða atkvæði gegn því að þessi leið verði farin, kannski sömu þingmenn og greiddu atkvæði með því að hygla hlutafélagaforminu á sínum tíma. Grunur minn er þá kannski á rökum reistur, að ætlunin sé sú að hlutafélagavæða sparisjóðina. Að þessu sögðu og í ljósi þess að (Forseti hringir.) þingheimur ætlar að hafna þessari sjálfsögðu tillögu mun ég ekki greiða atkvæði með þessu frumvarpi.